141. löggjafarþing — 17. fundur,  11. okt. 2012.

framkvæmd þingsályktunar um að Íslands skapi sér afgerandi lagalega sérstöðu varðandi vernd tjáningar- og upplýsingafrelsis, munnleg skýrsla mennta- og menningarmálaráðherra - Ein umr.

[11:23]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra fyrir afar yfirgripsmikla og nákvæma skýrslu um stöðu þessa verkefnis. Hún gerði vel grein fyrir stöðunni eins og hún er í dag.

Rétt eins og hæstv. ráðherra lýsti áðan skiptist þessi þingsályktun í meginatriðum í fjóra hluta, þ.e. í fyrsta lagi þætti er varða ærumeiðingar, í öðru lagi vernd afhjúpenda, í þriðja lagi hluti sem snúa að fjarskiptalögum og í fjórða lagi hömlur á tjáningarfrelsi.

Ég ætla að fara yfir þetta í þessum fjórum liðum þrátt fyrir að ég muni einblína á einn þeirra. Ljóst er að lög um refsingar vegna ærumeiðinga eru orðin gamall lagabálkur sem þarfnast þess tvímælalaust að vera endurskoðaður. Jafnframt hefur nútímatækni og breytingar á lögum í öðrum löndum leitt til þess að staðan hefur breyst og lögin eru ófullkomin. Mér dettur sérstaklega í hug eitt atriði sem er mér þyrnir í augum, þ.e. það sem kallað er á ensku „libel tourism“ og fjallar um að hægt sé að lögsækja mann í öðru landi fyrir til dæmis birtingu á internetinu. Við höfum dæmi hérna á Íslandi þar sem maður var dæmdur í Bretlandi fyrir meiðyrði sem hann skrifaði á vef Háskóla Íslands.

Þróunin í Evrópu virðist vera sú að jafnvel verði hægt að framfylgja þessum dómum hér á landi, þ.e. maður getur skrifað eitthvað ærumeiðandi á vefinn sinn á ensku, er dæmdur í Bretlandi og síðan kemur sýslumaðurinn á Íslandi með stefnu til manns. Þetta er afar óheppileg þróun og ég vara mjög við því að Ísland undirgangist þá þróun sem er í Evrópu.

Í öðru lagi er vernd afhjúpenda. Hvað hana varðar getur vissulega verið gagnlegt og þjóðhagslega hagkvæmt í mörgum tilfellum að hlutir séu afhjúpaðir en það er mjög þarft fyrir þá sem berjast hvað harðast fyrir þessu að gera sér grein fyrir því að almannahagsmunir og þjóðaröryggi geta oft krafist þess að hlutir séu leynilegir. Við höfum séð dæmi um það, t.d. upplýsingavefinn Wikileaks, sem hefur tvímælalaust leitt til þess að almannahagsmunir hafa verið skertir. Það þarf að huga mjög vel að því hvernig staðið verður að þessu ákvæði.

Síðan er þriðja atriðið, sem er ég hef kannski mestan hug á, um fjarskiptalögin, varðveislu rafrænna upplýsinga og annað slíkt. Ég tel að það þurfi að útvíkka vinnu stýrihópsins til að taka til fleiri hluta. Nýleg þróun í Bandaríkjunum til dæmis sem kallast á bandarísku „intermediate liability“ — það er mjög mikilvægt að við Íslendingar tökum á engan hátt þátt í þeirri þróun, þ.e. að gera geymsluaðila upplýsinga ábyrga fyrir því sem þar er geymt. Ég tel að það sé gríðarlega mikilvægt. Í framhaldi af því þarf að skoða í tengslum við fjarskiptalögin hluti eins og höfundarrétt, sem ég tel mjög mikilvægt að varðveita ólíkt sumum hér í salnum, upplýsingalög hvers konar og síðan persónuvernd þeirra sem geyma upplýsingar á miðlægum gagnagrunnum. Þetta tel ég mikilvægt að skoða því að ég held að í því liggi gott tækifæri fyrir Ísland, þ.e. ef þetta lagaumhverfi verður þróað þannig að persónuvernd sé virt og við búum ekki til einhvers konar afland fyrir upplýsingar, getum við sagt, þá liggja mikil tækifæri hérna. Þróunin í Evrópu hefur verið í þveröfuga átt við það sem ætti að vera og virðist vera í Bandaríkjunum líka.

Síðan eru hömlur á tjáningarfrelsi. Ég tel að almannahagsmunir og þjóðaröryggi eigi tvímælalaust að geta leitt til einhvers konar hamla á tjáningarfrelsi, t.d. lögbann við væntanlegri birtingu. Jafnframt, eins og hæstv. ráðherra benti á áðan, er hægt að setja stórt spurningarmerki við (Forseti hringir.) hvernig hægt er miðað við núverandi löggjöf að birta einkamál tveggja þjóðþekktra persóna næstum því án athugasemda þar sem upplýsingarnar koma málinu ekkert við.