141. löggjafarþing — 17. fundur,  11. okt. 2012.

framkvæmd þingsályktunar um að Ísland skapi sér afgerandi lagalega sérstöðu varðandi vernd tjáningar- og upplýsingafrelsis, munnleg skýrsla mennta- og menningarmálaráðherra.

[11:30]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Forseti. Ég þakka hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra fyrir vinnu hennar við að tryggja að þingsályktuninni verði framfylgt og fagna því mjög að settur hafi verið á fót stýrihópur. Við fengum formann stýrihópsins og fleiri úr ráðuneytinu til fundar við okkur í allsherjar- og menntamálanefnd til að fara yfir málið með okkur, sérstaklega með tilliti til réttarstöðu afhjúpenda. Kom þar fram að vinnu nefndarinnar miðar vel áfram.

Mig langar að beina nokkrum fyrirspurnum til hæstv. ráðherra. Ein er sú að skil nefndarinnar eru 13. maí á næsta ári, sem er þá væntanlega á tímabili nýrrar ríkisstjórnar.

Hvernig verður tryggt að haldið verði áfram með vinnuna? Er það hægt og væri ekki skynsamlegt að reyna að hraða henni sem mest? Eru miklir möguleikar á að verkefnið verði klárað á þessu þingi? Hvað mun ekki verða klárað? Er hægt að fá upplýsingar um það?

Fram kom fram á fundi allsherjar- og menntamálanefndar með stýrihópnum að ef til vill væri gagnlegt að stýrihópurinn kæmi reglulega á fund nefndarinnar til þess að við, þingið, værum betur upplýst um framgang mála. Stýrihópurinn gæti komið á fund nefndarinnar kannski á þriggja mánaða fresti eða jafnvel oftar, ef til tíðinda drægi í nefndinni, til dæmis ef setja ætti lög og þess háttar.

Ég fagna því mjög að að halda eigi ráðstefnu þar sem afhjúpendur eru meginþemað. Mig langar að vita hvenær til stendur að halda þá ráðstefnu þannig að maður geti nú fylgst með og mætt á hana.

Mig langaði líka að fjalla aðeins um meiðyrðamálin eða meiðyrðamálaflakkið sem hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson kom inn á, þ.e. „libel tourism“. Gerð var beiðni um undanþágu í samningaviðræðum við Evrópusambandið. Mér skilst að erfitt geti verið að fá þá undanþágu.

Ég er ekki alveg með það á hreinu en það væri gott að fá frekari útskýringar á því hvort það sé hægt og hvort einhver möguleiki sé þá á að fyrirbyggja að við þurfum að vera undir ægivaldi breskra dómstóla. Málin hafa nefnilega þróast á þann veg að skrifi til dæmis einhver bók á pólsku sem gefin er út í Póllandi og aldrei þýdd á enska tungu, svo kaupir einhver tíu eintök í Bretlandi og þá er hægt að höfða mál gegn útgefanda og höfundi bókarinnar þó að viðkomandi sé ekki einu sinni með efnið á ensku sem verið er að fjalla um.

Meiðyrðadómstóllinn nær út fyrir Evrópu. Ég veit til dæmis um kanadískan rithöfund, konu, sem fjallaði um námufyrirtæki í Kanada. Bók hennar var stoppuð, því miður, og rithöfundurinn og útgefandi gáfust hreinlega upp vegna þess að málið reyndist mjög kostnaðarsamt. Sá dómstóll er miklu dýrari en okkar.

Þetta er allt of stuttur tími til að fara yfir svo gríðarlega stórt mál sem þetta er en mig langar aðeins að fara yfir það sem nefnt er á vefsíðunni hjá stýrihópnum. Það er atriði nr. 5, um málskostnað í málum er varða tjáningarfrelsi og hvort rétt sé að setja reglur um opinbera réttaraðstoð vegna málskostnaðar.

Það er tilvísun í nokkuð sem kallast „anti-SLAPP“. Mér finnst að við þurfum að skoða það mjög vel í ljósi fjölmargra meiðyrðamála sem átt hafa sér stað hérlendis. Þá langar mig líka að heyra meira um samskiptaverndina og vernd milliliða og jafnframt að benda á að við tökum nú upp upplýsingalögin í þriðja skipti. Ég vonast til þess að þingið beri gæfa til að tryggja að upplýsingalögin verði í anda þingsályktunartillögu þessarar. Mjög mikilvægt er, burt séð frá því hverjir sitja við stjórnvölinn, að þingsályktuninni verði fylgt eftir, að við tryggjum að við höfum alltaf bestu mögulegu löggjöf á þessu sviði og að tryggt sé að lögin séu uppfærð reglulega. Kanadamenn voru með bestu mögulegu upplýsingalöggjöf fyrir 15 árum en nú eru þeir með eina þá verstu í heiminum.

Mig langar líka að benda á að það er mjög mikilvægt að við tryggjum góða löggjöf í þessum efnum. Ein af ástæðunum fyrir því að ég fór að vinna að þessari þingsályktunartillögu á sínum tíma var tilraun Kaupþings til að setja lögbann á frétt RÚV um lánabók bankans. Það vakti mig til meðvitundar. Sem betur fer fjallaði Kastljós nýverið um málefni sem tengist afhjúpendum og varð það til þess að fólk í samfélaginu vaknaði til meðvitundar um þessi mál og það gerðist líka hér á Alþingi, sem er ekki síður mikilvægt. (Forseti hringir.) Ég hefði gjarnan viljað fá hæstv. innanríkis- og utanríkisráðherra, sem málið heyrir undir, til að sitja undir þessum umræðum. Ég bendi forseta á að það væri gagnlegt að (Forseti hringir.) fá ráðherra til að vera viðstaddir þegar verið er að fjalla um mál sem heyra beinlínis undir þá.