141. löggjafarþing — 17. fundur,  11. okt. 2012.

framkvæmd þingsályktunar um að Ísland skapi sér afgerandi lagalega sérstöðu varðandi vernd tjáningar- og upplýsingafrelsis, munnleg skýrsla mennta- og menningarmálaráðherra.

[11:37]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra fyrir yfirferðina. Ég sit sem varamaður í allsherjar- og menntamálanefnd. Þar óskaði ég eftir því að fundað væri um tjáningar- og upplýsingafrelsi, sérstaklega hvað varðar málefni uppljóstrara eða þær tillögur sem fram koma í þingsályktunartillögunni um þá í framhaldi af viðbrögðum Ríkisendurskoðunar og Fjársýslu ríkisins við leka varðandi skýrslu frá Ríkisendurskoðun.

Fulltrúar frá starfshópnum og ráðuneytinu mættu á fund nefndarinnar og fóru aðeins í gegnum þessi mál, sem var mjög hjálplegt og gott. Ég lagði þar til að komið yrði á reglulegum fundum með starfshópnum og allsherjar- og menntamálanefnd um þingsályktunartillöguna þar sem við mundum reyna að tryggja þá eftirfylgni sem talað er um í tillögunni, það verði haldnir fundir á þriggja mánaða fresti þegar dregist hefur að upplýsa þingið um gang mála, og að það verði líka á vegum nefndanna. Málefnið fellur auðvitað undir verkefni allsherjar- og menntamálanefndar.

Í máli þeirra komu fram nokkur atriði sem ég ætlaði að fá að nefna. Í fyrsta lagi var talað um allan þann fjölda ákvæða sem er varðandi þagnarskyldu opinberra starfsmanna. Menn sögðu að það væru milli 100 og 200 ákvæði í lögum sem tryggja eiga þessa þagnarskyldu.

Mat þeirra var að það þyrfti að einfalda þetta og draga úr öllum þessum gífurlegu kvöðum hvað þagnarskylduna varðar. Síðan komu fram áhyggjur af aðildarumsókninni að Evrópusambandinu, eins og komið hefur fram hér, til dæmis í máli hv. þm. Birgittu Jónsdóttur og fleiri. Sagt var að aðildarumsóknin mundi gera það að verkum að við yrðum að fylgja eftir dómum sem falla í öðrum löndum, að það væri nánast skilyrði fyrir aðildinni.

Ég held að það sé mjög brýnt að við fáum það á hreint, og ég hef ekki fengið skýr svör við því, hvort þetta sé eitt af þeim atriðum sem búið er að ræða við samninganefndina og eins við utanríkismálanefnd og hæstv. utanríkisráðherra, um að gæta þurfi að þessu atriði við samningagerðina því að þetta er stórhættulegt. Ég er sannfærð um að fleiri þjóðir en við Íslendingar höfum áhyggjur af þessu, til dæmis hvað varðar meiðyrðalöggjöfina í Bretlandi.

Mér heyrist reyndar að bresk stjórnvöld séu að endurskoða ýmislegt varðandi lagaumhverfi fjölmiðla í Bretlandi. Ég veit ekki hvort það muni auka upplýsinga- og tjáningarfrelsi í því landi en ég held að það væri kannski ástæða til að taka það upp við bresk stjórnvöld hvort þau þurfi ekki að endurskoða meiðyrðalöggjöfina hjá sér og þau áhrif sem þau hafa á tjáningarfrelsi ríkisborgara annarra landa.

Síðan nefndi hæstv. ráðherra líka að það hefði valdið henni ákveðnum örðugleikum að verkefninu skyldi ekki fylgja neinn peningur, það væri skoðun hennar að kostnaðarmeta ætti frumvörp eða tillögur þingmanna alveg eins og gert er varðandi stjórnarfrumvörpin. Ég get svo sannarlega tekið undir það. Við þingmenn Framsóknarflokksins höfum lagt fram tvær tillögur sem við vonumst til að geti bætt vinnubrögðin hér innan dyra, annars vegar að sett verði á stofn lagaskrifstofa Alþingis, það var mjög leitt að núverandi ríkisstjórn skyldi stofna slíka skrifstofu hjá forsætisráðuneytinu í staðinn fyrir að hafa hana á þinginu eins og við töluðum um, og hins vegar Þjóðhagstofu. Í framhaldi af því hafa menn bent á að það sé eins með hana og stofnun rannsóknarþjónustu þingsins sem gæti þá stutt við starfsemina.

Að þeirri tillögu stóð meiri hluti þingmanna Framsóknarflokksins, fimm af níu. Tillagan er í fullu samræmi við grundvallarstefnuskrá Framsóknarflokksins. Þar segir að við munum ávallt verja skoðana- og tjáningarfrelsi, trúfrelsi og friðhelgi einkalífsins og að við vinnum ötullega að réttlátu stjórnarfari, opnum stjórnarháttum og valddreifingu.

Ég held að tillagan gangi nákvæmlega út á þessa þætti. Það hafa að vísu verið tekin jákvæð skref nú þegar sem koma til móts við þessar athugasemdir. Gerðar hafa verið breytingar á lögum um fjölmiðla, en eins og bent er á í þingsályktunartillögunni þarf hugsanlega að ganga enn lengra, að dómarar hafi í dag of mikinn sveigjanleika til að aflétta vernd heimildarmanna blaðamanna.

Við höfum kallað eftir því, og ég tel að það sé mjög brýnt, að tekið sé á þagnarskylduákvæðum og að vernd uppljóstrara tryggð, ekki bara hjá starfsmönnum hins opinbera heldur líka í einkageiranum. Síðan hefði verið ánægjulegt ef hæstv. ráðherra hefði minnst á að ákvæði varðandi gjafsókn í fordæmisgefandi málum var samþykkt á þingi og er það stórt skref í að tryggja raunverulega réttarfarsvernd. Þó að komið hafi ábending um að ekki væru nægilegir fjármunir tryggðir frá hendi innanríkisráðuneytisins hlýtur það að vera okkar sem sitjum á þingi að tryggja að fjárveitingar til þessara mála komi í gegnum fjárlög þegar við samþykkjum mál sem eru brýn og skipta máli fyrir grundvallarmannréttindi eins og tjáningarfrelsið. (Forseti hringir.) Alþingi hefur náttúrlega fjárveitingavaldið.