141. löggjafarþing — 17. fundur,  11. okt. 2012.

framkvæmd þingsályktunar um að Ísland skapi sér afgerandi lagalega sérstöðu varðandi vernd tjáningar- og upplýsingafrelsis, munnleg skýrsla mennta- og menningarmálaráðherra.

[11:43]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Herra forseti. Það er með ánægju sem við fjöllum um svo mikilvægt mál sem upplýsinga- og tjáningarfrelsi er. Ég vil reyndar ganga svo langt að tala hér um einn af hornsteinum lýðræðissamfélags okkar.

Ég vil nota tækifærið og þakka frumkvæði þingmanna Hreyfingarinnar í þessu efni. Nefni ég þar sérstaklega hv. þm. Birgittu Jónsdóttur sem unnið hefur mikilvægt starf í þá veru, sem á að vera leiðarljós okkar þegar kemur að upplýstu samfélagi og því tjáningarfrelsi sem þar á að ríkja.

Þar eigum við Íslendingar vitaskuld að vera í fararbroddi vegna þess að við höfum státað af tiltölulega opnu kerfi en höfum engu að síður brennt okkur margsinnis á leyndinni sem umlukið hefur samfélag okkar. Af því þurfum við að læra. Við lesum um það í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og einnig í nýrri skýrslu um ófarir Orkuveitu Reykjavíkur, að upplýsingin þarf að eiga vinninginn þegar við fjöllum um samfélag okkar í bráð og lengd.

Leynd, klíka, drottnun og þöggun. Þessi fjögur orð hafa á margan hátt verið áberandi í íslensku samfélagi lengi framan af. Af leyndinni sprettur klíkuskapur, af klíkuskapnum sprettur drottnun og af drottnuninni sprettur þöggun. Það þekkjum við allt úr nýliðinni sögu Íslendinga þegar heilu og hálfu sérfræðideildir háskólanna treystu sér ekki lengur til að tjá sig um eðlilegustu hluti sem fram fóru í íslenskri orðræðu og umræðu hér á landi.

Við það viljum við ekki búa. Þess vegna þarf að aflétta þeirri þöggunaráráttu sem er eilíflega til staðar í hverju samfélagi og þeirri drottnunaráráttu sem er sömuleiðis til staðar í samfélögum sem ekki hafa upplýsingu og tjáningarfrelsi að leiðarljósi.

Það hefur verið athyglisvert að horfa á viðbrögð manna á undanförnum vikum við því þegar svokallaður leki á sér stað í samfélaginu. Við þekkjum nýleg dæmi þess efnis, nú síðast þegar ófullgerðri skýrslu Ríkisendurskoðunar var lekið úr þeirri ágætu stofnun og viðbrögðin voru með þeim hætti að hengja ætti sendiboðann. Reyndar vakti það sérstaka athygli þess sem hér stendur að undir það var tekið af ákveðnum þingmönnum í pontu Alþingis eftir að það mál kom upp og er það umhugsunarvert.

Sá sem hér stendur vann við fjölmiðla í 28 ár samfellt og þekkir ágætlega hversu algengt það er að þöggun innan stjórnsýslunnar, innan fyrirtækja, þar á meðal innan ríkisfyrirtækja, eigi sér stað. Fyrir vikið komast ekki nauðsynlegar upplýsingar um vandamál eða hneykslismál til skila til upplýstrar umræðu.

Sú þingsályktunartillaga sem hér er til umfjöllunar er vel unnin. Hún er á margan hátt róttæk og sumir ætla að þar sé gengið of langt fram. Ég held ekki. Ég held að menn gleymi því í þessu efni að fjölmiðlar sinna starfi sínu af fagmennsku og fjölmiðlar munu alltaf skilja á milli einkalífs annars vegar, þess sem ekki á erindi við almenning og þess sem sannarlega á erindi við almenning.

Þar vinnur fagfólk og það velur þar á milli. Fjölmiðlar munu alltaf gera greinarmun á því sem tilheyrir einkalífi hvers og eins og á ekkert erindi í fjölmiðla og þess sem sannarlega getur bætt samfélagið, ég þekki það ágætlega. Auðvitað höfum við undantekningar á því en við eigum ekki að næra umræðu okkar á þeim undantekningum. Þeir fjölmiðlar eru dæmdir illa af almenningi. Við eigum mikið frekar að næra umræðuna á því sem oftast er gert og vel.

Þess vegna tel ég mjög mikilvægt að þingsályktunartillagan fái rækilega meðferð hjá framkvæmdarvaldinu og eins og hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra gat um er stýrihópur við vinnu við málið sem mun skila af sér niðurstöðu á útmánuðum. Er það vel, enda ber framkvæmdarvaldinu að fara að vilja Alþingis sem var skýr í júnímánuði 2010 þegar málið var afgreitt frá Alþingi.

Ég tel að það þurfi hins vegar að skoða margt áfram. Þetta getur verið upptaktur að frekari opnun samfélagsins. Ég held að það þurfi að skoða margt í þessu máli enn frekar og nefni þar sérstaklega nafnlausan óhróður sem geymdur er á vefjum og tölvum til langrar framtíðar og situr þar eftir sem hver önnur staðreynd. Á því þarf að taka með einhverjum hætti. En þetta mál er vissulega upptaktur að því að opna samfélagið enn betur og verja þá sem vilja benda á misfellurnar sem iðulega eru til staðar í hverju samfélagi.