141. löggjafarþing — 17. fundur,  11. okt. 2012.

kosningar til Alþingis og kosningar til sveitarstjórna.

180. mál
[12:47]
Horfa

Frsm. stjórnsk.- og eftirln. (Margrét Tryggvadóttir) (Hr) (andsvar):

Forseti. Ég vil þakka þingmanni fyrir ræðuna og bregðast örlítið við máli hans. Það sem hann hafði áhyggjur af var vissulega rætt í nefndinni og kom einnig fram í umsögnum frá ýmsum. Við þessu hefur verið brugðist með tvennum hætti. Annars vegar í frumvarpinu sjálfu, þar er ekki verið að víkka út þann hóp sem á rétt á aðstoð, þetta snýr einungis að þeim sem eiga erfitt með að kjósa sökum sjónleysis eða þess að þeim sé hönd ónothæf, eins og segir í frumvarpinu.

Við fengum mjög góðar ábendingar frá einum kjörstjóra og eftir þær settum við inn þá breytingartillögu að hver aðstoðarmaður gæti einungis aðstoðað einn kjósanda. Ég held að það sé mjög til bóta og komi í veg fyrir, vona ég, að einhverjum detti í hug einhvers konar smölun við kosningu eða nauðung.