141. löggjafarþing — 17. fundur,  11. okt. 2012.

kosningar til Alþingis og kosningar til sveitarstjórna.

180. mál
[13:55]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. innanríkisráðherra og öllum þeim sem að þessu máli hafa komið. Það er nú um okkur sem fötluð erum að við getum þurft á að halda aðstoðarhundum eða aðstoðarmönnum eða aðstoð af tækninnar hálfu eða annarri aðstoð til daglegra athafna.

Sem þingmaður úr röðum blindra og sjónskertra fagna ég því sérstaklega að nú séu leynilegar kosningar loksins veruleiki fyrir fatlaða. Það sér hver maður hver skerðing það er á leynilegum kosningum að þurfa að leita til ókunnugra um að aðstoða sig við leynilega athöfn. Um leið legg ég áherslu á að gott eftirlit verði með hinni nýju framkvæmd og þess verði gætt að óvandaðir kosningasmalar nýti sér ekki hina nýju skipan til að hafa óeðlileg áhrif á það með hvaða hætti fólk nýtir atkvæðisrétt sinn.