141. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2012.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[14:22]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Þá skil ég ekki af hverju má ekki bara standa að stjórnin skuli kjörin á aðalfundi til eins árs. Af hverju má það ekki standa? Þá er það greinilegt og skýrt.

Varðandi manninn sem er óvirkur þarna í stjórn legg ég til að hv. nefnd sem fær þetta til skoðunar fái sérfræðing til að skera úr um það hvort það geti verið að maður í stjórn hafi ekki stjórnarheimildir. Ég hef alla vega ekki heyrt af því áður að einhver maður sé í stjórn sem ekki hafi atkvæðisrétt. Það er mjög undarlegur stjórnarmaður. Þá er ég ekkert að tala um hvort hann sé fulltrúi starfsmanna eða eitthvað annað, ég er ekkert að tala um það út frá því. Ég vil hins vegar benda á að þegar fulltrúi starfsmanna er í stjórn og hefur stjórnarheimildir til að stjórna þá ræður hann forstjóra og forstjóri ræður hann. Þannig er kominn hringur í skipuritinu sem þykir mjög skaðlegt, herra forseti, og eyðilagði t.d. Sambandið á sínum tíma.

Varðandi ohf. — mér finnst að það eigi að vera samræmi í þessum lögum og hlutafélagalögunum. Ef alls staðar stendur ohf. er samræmi. Það er mikilsvert þegar almenningur þarf alls staðar að skrifa ehf. eða hf. með nafni fyrirtækis sé gerð sú krafa að í lagatexta sé það gert líka.