141. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2012.

opinber stuðningur við vísindarannsóknir.

198. mál
[14:38]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég held að það sé einmitt mjög brýnt, í ljósi þess að ekki er fjallað nægilega vel um þetta með opna aðganginn í greinargerð með frumvarpinu, að komið verði á framfæri við nefndina sem allra fyrst minnisblaði og upplýsingum um raunverulega hvað er í gangi hjá ráðuneytinu og hjá Rannís varðandi þetta.

Þegar ég var að reyna að kynna mér þetta fann ég markáætlun um upplýsingatækni og umhverfismál 1999–2004. Sú sem tók við var markáætlun um erfðafræði í þágu heilbrigðis og örtækni. Og sú sem við erum að starfa eftir núna er um öndvegissetur og klasa. Samkvæmt vefsíðu Rannís hefur verið úthlutað úr þeim sjóði verkefnum vegna jarðhita, vitvélaseturs og svo jafnréttis- og margbreytileikarannsókna.

Í rauninni er bara eitt verkefni sem maður getur sagt að flokkist undir félagsvísindi. Þá vil ég einmitt benda sérstaklega á varðandi markáætlanirnar að mér finnst skorta svolítið á það í frumvarpinu að sagt sé meira um hvað það er sem við ætlum að leggja áherslu á. Og þá minni ég á þá vinnu sem þáverandi menntamálaráðherra setti af stað í framhaldinu af hruninu með erlendum sérfræðingum um framtíðarstefnumörkun varðandi menntakerfið okkar. Þar tala þeir um að við eigum að leggja áherslu á þrjú meginsvið, þ.e. heilbrigðis- og lífvísindi, þau töluðu um jarðvísindi eða náttúruvísindi og svo töluðu þau um skapandi greinar og þau horfðu líka til tækni í skapandi greinum, eins og Háskóli Reykjavíkur hefur verið að vinna með. Ég held því að það sé mjög brýnt og við verðum að læra af reynslunni hvað varðar markáætlun að við getum ekki verið að setja peninga í einhver ný verkefni, dreifa þeim eins og mér hefur fundist við hafa verið að gera varðandi markáætlanir. Það þarf að koma skarpari fókus.

Annað sem ég vildi líka spyrja ráðherrann um. Telur ráðherrann eðlilegt að stjórnarmenn sem mundu sitja í stjórn markáætlunar geti síðan verið að úthluta sínum stofnunum styrkjum á vegum markáætlunar.