141. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2012.

opinber stuðningur við vísindarannsóknir.

198. mál
[14:47]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Í andsvari við hæstv. ráðherra nefndi ég þau þrjú atriði sem ég hafði einna helst hugsað mér að ræða. Ég ætla samt í upphafi að fá að taka undir það sem hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sagði. Ég sit í stjórn félags sem hefur ítrekað fengið styrki í gegnum AVS-sjóðinn og ég tel að þeir fjármunir hafi farið í ágætisverkefni. En ég tek undir þær ábendingar sem koma hér fram, að sjálfsögðu á að gera sömu kröfur til þeirra verkefna sem verið er að úthluta til í gegnum þann sjóð og gerðar eru til rannsóknarverkefna hér. Það fyrirtæki sem ég hef setið í stjórn í hefur lagt mjög mikla áherslu á að vera mjög framarlega í þeim rannsóknum sem það hefur fengið styrki til að gera.

Ég held að við ættum að horfa til þessa, eins og ég tel að hæstv. ráðherra hafi verið að taka undir, og taka þetta raunar enn lengra. Undir ráðuneyti hæstv. ráðherra er fjöldinn allur af litlum sjóðum sem hafa verið að styrkja hinar svokölluðu skapandi greinar. Ef við ætlum að gera það af alvöru, eins og erlendir sérfræðingar ráðlögðu okkur í framhaldi af vinnu sem þáverandi menntamálaráðherra, hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, setti af stað, þá eigum við að segja að þessar greinar, þessi fög, skipti jafnmiklu máli og eigi þá að sjálfsögðu að hlíta sömu úthlutunarreglum og áherslum og önnur fög.

Við erum komin með Listaháskóla. Við sjáum mjög spennandi verkefni frá Háskólanum í Reykjavík varðandi tækniþróun í tengslum við skapandi greinar. Við erum með metnaðarfullt framhaldsskólanám á sviði tækni sem hægt væri að tengja við hinar ýmsu skapandi greinar. Ég held að það sé eitt af því sem ráðherrann ætti að íhuga, hvort ekki sé mögulegt að setja þá sjóði líka undir lög um opinberan stuðning við vísindarannsóknir.

Eins og hæstv. ráðherra sagði er umtalsverður munur á því að tala um hvort birta eigi eitthvað opinberlega, eins og er í gildandi lögum, eða í opnum aðgangi. Spurt er: Hvað er opinn aðgangur? Ráðherrann vísaði í Berlínaryfirlýsinguna en þar er talað um tvíþætta skilgreiningu á framlagi í opnum aðgangi. Annars vegar verða rétthafar þess að hafa veitt óafturkræfa og almenna heimild til frjálsrar notkunar, afritunar, dreifingar, opinberrar birtingar og gerðar afleiddra verka svo lengi sem uppruna er rétt getið. Hins vegar þarf framlagið í heild að vera geymt í almennt aðgengilegum gagnagrunni sem er haldið við af stofnun sem hefur opinn aðgang og langtímavarðveislu að markmiði sínu. Því má eiginlega segja að þetta falli líka að vissu leyti undir það sem við ræddum fyrr í dag, sem var þingsályktunartillagan um tjáningar- og upplýsingafrelsi eða hin svokallaða IMMI-tillaga.

Þetta er sem sagt ein skilgreiningin en önnur skilgreining hefur líka gjarnan komið við sögu, sem í raun stangast á við þá hugmynd sem ráðherrann kom inn á, þ.e. að hægt væri að samþykkja að borga fyrir það að tryggja opna aðganginn. Þá erum við að segja að margir skilji opinn aðgang þannig að um gjaldfrjálsan aðgang sé að ræða þannig að einungis eigi að birta það sem ekki er rukkað fyrir. Dæmi um það gætu verið þau tímarit sem háskólar hafa verið að gefa út, þau eru opin á vefnum hjá þeim og þeir rukka ekki neitt fyrir aðganginn. Það er það sem fólk á við þegar það talar um opinn aðgang, að því sé frjálst að lesa framlag á netinu án endurgjalds. Ég gat ekki skilið orð ráðherrans öðruvísi en svo að hún væri að segja að þetta væri ekki endilega hennar skilningur heldur frekar sá sem kemur fram í Berlínaryfirlýsingunni.

Einnig hefur verið talað um fleiri leiðir eða útfærslur varðandi þennan opna aðgang. Ég held að allsherjar- og menntamálanefnd þurfi að fara virkilega vel yfir þetta og í samstarfi við ráðuneytið því að þetta er eitthvað sem við viljum sjá gerast. Að sjálfsögðu viljum við ekki að það hefti færustu vísindamenn okkar í því að geta komið niðurstöðum sínum á framfæri.

Varðandi markáætlunina þá er í 5. gr., b-lið, talað um að verkefni skuli unnin í nánu samstarfi fyrirtækja, rannsóknarstofnana og háskóla á einstökum sviðum eða þverfaglegum fræðasviðum á grundvelli vandaðra rannsóknaráætlana. Ég vil leggja mjög mikla áherslu á að hér þarf að gæta að því að hugvísindin og félagsvísindin — jafnvel rannsóknir sem við teljum skipta mjög miklu máli, eins og til dæmis á íslenskri tungu, sögu, menningu — séu ekki útilokuð frá markáætluninni.

Ég tel líka mjög mikilvægt að gæta að því, þegar við horfum á þennan texta, að við séum heldur ekki að útiloka konur frá því að stjórna verkefnum á vegum markáætlunar. Þau þrjú verkefni sem voru styrkt núna, í tengslum við öndvegissetur og klasa — það var jarðhiti, vitvélasetur og svo voru jafnréttis- og margbreytileikarannsóknir. Af þessum verkefnum fór lægsta upphæðin einmitt til jafnréttis- og margbreytileikarannsókna. Það hefur sýnt sig varðandi vísindarannsóknirnar að við erum ekki bara að tala um að færri konur séu verkefnisstjórar í stórum og viðamiklum verkefnum heldur hafa styrkirnir sem konur hafa fengið verið lægri í krónum talið. Þetta er eitthvað sem ég held að við þurfum að gæta mjög vel að.

Við þurfum líka að gæta mjög vel að því að í markáætlununum hafa verið einu rannsóknarstyrkirnir þar sem um raunverulegar upphæðir er að ræða, fyrir utan það þegar menn taka þátt í Evrópusambandsverkefnum og öðru slíku, á einhverju nýju vísindasviði. Þar sem jafnvel er viðurkennt í fréttatilkynningum frá menntamálaráðuneytinu að einungis örfáir vísindamenn hafi þá þekkingu sem til þarf. Ég horfi hér sérstaklega til markáætlunar um örtækni, sem var algjört uppbyggingarstarf. Það er spurning hversu miklu það hefur skilað ef horft er til þeirra áherslusviða sem erlendu sérfræðingarnir höfðu.

Það er eins og hæstv. ráðherra talaði hér um. Þegar kom að markáætlun 2007–2015 kom fjöldi manns að því að móta stefnumörkun hvað það varðaði. Ég held að það sé einmitt mjög mikilvægt að leggja áherslu á að þannig þarf að nálgast þetta, að það séu margir sem koma að þessu og að í einhverjum tilvikum séu það jafnvel ekki bara íslenskir aðilar, Íslendingar, sem vinni þá undirbúningsvinnu, þ.e. að því hvert áherslusviðið eigi að vera, heldur fái líka utanaðkomandi aðilar, sem hafi kannski ekki sömu hagsmuni hvað það varðar, að leita eftir styrkjum hjá Rannís.

Þá er ég komin að öðrum þætti varðandi markáætlunina. Í d-lið í 5. gr. er í síðustu setningunni talað um að ákvarðanir stjórnar um veitingu styrkja úr markáætlun séu endanlegar á stjórnsýslustigi. Ég hef skilning á því, því að það eru náttúrlega ákveðin matsatriði sem koma að því að meta þessar umsóknir. En þá er líka mjög mikilvægt að í lagatextanum sjálfum komi fram hvaða kröfur við viljum gera varðandi þetta ferli. Sem dæmi vil ég nefna að hugsanlega þyrfti að setja inn ákvæði um að stjórnarmenn, sem sitja þá í stjórn markáætlunar og taka ákvörðun um hvernig úthluta eigi þessum fjármunum, séu búnir að taka sig út af listanum sjálfir, þ.e. að þeir séu ekki að fara að úthluta sjálfum sér styrkjum og að sjálfsögðu ekki sinni eigin stofnun eða stofnun sem þeir eru í forsvari fyrir. Það getur verið mjög erfitt að tryggja að menn séu þá hlutlausir varðandi matið, og eins og hér kemur fram hafa menn enga möguleika á að vísa ákvörðun stjórnar um veitingu styrkja eitthvert annað. Það þarf að tryggja hæfið hér í lagatextanum.

Ég vil síðan fagna því sem ráðherrann talaði hér um varðandi kynjahlutföllin í tengslum við stuðning við vísindarannsóknir. Ég tel mjög brýnt að við veltum því fyrir okkur hvernig hægt sé að taka á því. Það virðist vera nákvæmlega það sem ráðuneytið hefur verið að gera í samstarfi við Rannís og á grundvelli þeirra stofnana sem hér eru undir. Ég held að þar sé til staðar raunverulegur vilji til að tryggja jafnræði kynjanna. Ég held að við getum jafnvel verið ákveðin fyrirmynd, ef við höldum áfram að vinna í því, gagnvart öðrum löndum. Þetta er ekki bara áhyggjuefni hér á Íslandi heldur raunar í vísindasamfélaginu á heimsvísu, að hugsanlega sé einhver kynjahalli hvað varðar úthlutun styrkja.

Þetta eru sem sagt mínar helstu athugasemdir. Ég vonast til þess að allsherjar- og menntamálanefnd fari mjög vel yfir þetta frumvarp og átti sig á því að það skiptir gífurlega miklu máli að þetta sé í lagi. Þetta eru þeir fjármunir sem vísindarannsóknir og vísindamenntun á Íslandi byggir á og byggir raunar upp það samfélag og þau störf sem við viljum sjá í framtíðinni. Það skiptir því verulega miklu máli hvernig við stöndum að þessum lagaramma.