141. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2012.

mótun reglna um verkferla og hæfnismat við opinberar embættisveitingar.

119. mál
[15:20]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka flutningsmönnum, hv. þingmönnum Árna Þór Sigurðssyni, Álfheiði Ingadóttur, Eygló Harðardóttur og Magnúsi Orra Schram fyrir þessa þingsályktunartillögu. Málefnið er vissulega mikilvægt, það hvernig við skipum í embætti í Stjórnarráðinu. Það skiptir máli fyrir margra hluta sakir. Það skiptir máli að tryggja að hæfasta fólkið sé ráðið til starfa þannig að við nýtum sem best sameiginlega peninga skattborgaranna. Það skiptir líka máli eins og kom fram í máli hv. þm. Árna Þórs, að það sé traust á stjórnsýslunni og þeir sem valdir eru til starfa þar séu valdir á grundvelli eigin verðleika og hæfni en ekki annarra sjónarmiða. Undir þetta held ég að allir geti tekið og um það sé góð og víðtæk sátt.

Ég vil nota tækifærið til að taka þátt í þessari umræðu og koma ákveðnum sjónarmiðum á framfæri. Það sem skiptir máli er að það er hægara sagt en gert að búa til einhvers konar skema eða forskrift um það hvernig eigi að meta fólk til starfa, hvort einn einstaklingur sé hæfari öðrum. Það verður nefnilega alltaf að hluta til huglægt mat að baki sérhverri ráðningu. Starfsmaður getur uppfyllt öll ytri skilyrði ef svo má segja, kröfur um menntun, reynslu og annað slíkt, en samt sem áður verið óheppilegur til starfans. Viðkomandi gæti rekist illa í hópavinnu eða ekki passað einhverra hluta vegna inn í það starfslið sem fyrir er. Það geta því verið uppi matskennd atriði sem ekki er hægt er að setja upp fyrir fram í matsferli þegar ráða á starfsmenn.

Þetta vandamál veit ég að hv. flutningsmaður þingsályktunartillögunnar þekkir og veit af. Því lenda ráðherrar gjarnan í ákveðinni klemmu þegar kemur að ráðningu, annars vegar er það sannfæring þeirra um að viðkomandi einstaklingur sem þeir vilja ráða til starfans sé hæfastur og hins vegar að ef slík ákvörðun er kærð til þar til bærra stofnana er mjög erfitt að henda reiður á eða leggja mat á það hvort þetta huglæga mat ráðningaraðilans, ráðherrans í þessu tilfelli, sé nægjanlega vel rökstutt til að menn stimpli stöðuveitinguna ekki sem pólitíska. Það er nauðsynlegt að hafa þetta í huga.

Það er ekki auðvelt fyrir hæstv. ráðherra að vinna eftir of þröngum skilgreiningum á hæfi eða getu starfsmanna, þetta er nefnilega flókið mál. Allir sem hafa einhvern tímann á ævinni fengist við að ráða fólk í vinnu þekkja að eitt er það sem er á starfsferilsskránni, annað það sem blasir oft við í viðtölum og í persónulegri viðkynningu. Það verður aldrei þannig hjá hinu opinbera að hægt verði að líta fram hjá því. Þess vegna fagna ég hugmyndum um að reynt sé í ríkari mæli að kalla til fagaðila sem geti hjálpað til við mannaráðningar.

Eitt fylgir því þegar ráðherra skipar í starf. Það þýðir að sá ráðherra þarf að standa með þeirri gjörð sinni, hann þarf jafnvel að standa í ræðustóli Alþingis og svara fyrir slíkar mannaráðningar. Fréttamenn geta spurt ráðherrann spjörunum úr og almenningur getur sagt sína skoðun, m.a. í kosningum ef mönnum finnst ráðherrann hafa gengið úr hófi fram hvað varðar mannaráðningar.

Það er ekki rétt að líta svo á að með því að fela hæfnisnefnd eða valnefnd valið losni menn við allar áhyggjur af kunningjatengslum eða einhvers konar spillingu. Það má segja að slíkar nefndir eru oft, virðulegi forseti, allt að því andlitslausar. Það er jafnvel auðveldara fyrir þá sem þar sitja að láta ráðast af ómálefnalegum sjónarmiðum. Ég er ekki að segja að það sé lenska en ég bendi á að þessir aðilar eru ekki, eins og þeir sem starfa á vettvangi stjórnmálanna, settir undir það eftirlit sem til dæmis Alþingi veitir framkvæmdarvaldinu og fjölmiðlar veita ráðamönnum þjóðarinnar.

Ég verð líka að segja að ég hef aldrei verið alveg sáttur við það fyrirkomulag eða fundist það sérstaklega skynsamlegt þegar ráðherrar geta sagt sem svo við mannaráðningu að vegna tengsla við viðkomandi aðila segi þeir sig frá málinu og annar ráðherra muni ganga frá ráðningunni. Ég er ekkert viss um að það sé betra. Ég held að betra sé að láta þann ráðherra sem vill ráða einstakling sem hefur einhver tengsl við hann standa bara frammi fyrir því og bera af því hallann. Menn geta ekki skotið sér á bak við einhvern og sagt: Það var einhver annar sem gerði það. Ég held að þetta sé að minnsta kosti til umhugsunar. Ég hef aldrei verið neitt sérstaklega hrifinn af þessu fyrirkomulagi. Mér finnst að þegar menn verða ráðherrar og handhafar framkvæmdarvaldsins í umboði þingsins verði þeir að bera pólitíska ábyrgð á athöfnum sínum og það sé ákveðin leið fram hjá þeirri pólitísku ábyrgð að kalla til annan ráðherra til að ganga frá mannaráðningunni.

Svo er það sú spurning sem ég veit að hv. þm. Árni Þór Sigurðsson hefur meðal annars velt upp og mundi vilja að væri rædd í nefndinni: Hvernig veljum við matsnefndirnar? Hver sá sem ræður og velur matsnefndina hefur um leið töluverð áhrif á það hvernig valið verður. Það má nokkuð ljóst vera.

Virðulegi forseti. Það eru mörg atriði hér sem skipta máli. Við höfum séð það í umræðunni að undanförnu þegar tveir hæstv. ráðherrar núverandi ríkisstjórnar hafa lent í því að brjóta jafnréttislög við mannaráðningar. Ég ætla ekki þessum hæstv. ráðherrum að hafa viljandi gert það. Ég ætla þeim það ekki. En það bendir til að í þessu kerfi okkar séu vandamál sem gera það að verkum að mannaráðningarnar geta orðið flóknari og erfiðari.

Það skiptir því miklu máli að það fyrirkomulag sem nefndinni er ætlað að þróa auki ekki á vandamála- og flækjustigið heldur einfaldi ferlið. Mér þætti áhugavert ef hægt væri að ná utan um hið matskennda, þ.e. að ekki sé bara litið á þá mælanlegu þætti sem ég nefndi heldur líka þá sem snúa að einstaklingnum eða persónu umsækjanda, hvernig það getur á einhvern hátt mælst inn í mat á því hver sé hæfastur til að gegna viðkomandi starfi.

Virðulegi forseti. Fleira var það ekki sem ég hafði um málið að segja.