141. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2012.

virðisaukaskattur.

60. mál
[15:39]
Horfa

Flm. (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um virðisaukaskatt, í þriðja sinn. Það hefur fengið mjög góðar viðtökur. Það hefur verið sent til umsagnar og allar umsagnir sem hafa borist um það hafa verið mjög jákvæðar og ég hef fundið mikinn stuðning við málið á Alþingi. Því miður hafa mál hins vegar æxlast svo að þrátt fyrir þetta hefur frumvarpið ekki hlotið afgreiðslu. Ég veit að unnið hefur verið að málinu í efnahags- og viðskiptanefnd þannig að ég tel að nefndin geti í sjálfu sér afgreitt það býsna hratt. Ég tel að hún eigi að gera það, ekki bara vegna þess að ég er fyrsti flutningsmaður heldur vegna þess að hér er um að ræða mál af þeim toga sem mjög er kallað eftir og nýtur þverpólitísks stuðnings. Það er einnig eðlilegt í ljósi þess að málið hefur verið flutt áður, umsagnirnar eru jákvæðar og það hefur þegar fengið efnislega meðhöndlun, að látið sé á það reyna í þinginu hvort málið njóti þess stuðnings sem dugir til að verða samþykkt og gert að lögum.

Bakgrunnur málsins er einfaldur. Hann er sá að húshitunarkostnaður í landinu er gríðarlega hár og þungbær. Ég held að menn geri sér kannski ekki alveg grein fyrir því að sá húshitunarkostnaður sem er mest sligandi bitnar bara á um 10% þjóðarinnar. Það eru bara 10% þjóðarinnar sem búa við þennan háa húshitunarkostnað og þess vegna ætti okkur ekki að vera skotaskuld úr því að koma fram með tillögur til að létta á þeim kostnaði. Ég hef sjálfur í hyggju að flytja um það sérstakt frumvarp sem vonandi verður dreift í næstu viku.

Við þurfum líka að leita annarra leiða til að draga úr þessum kostnaði því að jafnvel þó að gripið verði til einhverra aðgerða til að lækka húshitunarkostnað eigum við engu að síður að nota þá tækni sem er til staðar til að stuðla að lægra húshitunarverði.

Ég ætla aðeins að varpa mynd á þann vanda sem við er að glíma og byggi á svari við fyrirspurn sem ég fékk frá hæstv. iðnaðarráðherra um húshitunarkostnaðinn á 139. löggjafarþingi, en ég hafði óskað eftir því að ráðherrann birti upplýsingar um þróun húsnæðiskostnaðar á einstökum húsategundum hjá helstu orkuveitusvæðum. Þar blasir nokkuð við sem er dálítið lýsandi að mínu mati.

Ef við tökum húshitunarkostnað í 180 fermetra húsnæði í dreifbýli á svæði Rariks var hann í október 2010 talinn vera um 238 þús. kr. Allt er þetta á sama verðlagi sem ég mun hér rekja. Kostnaðurinn árið 2000 var 166 þús. kr. en fór lægst niður í 138 þús. kr. árið 2002. Þegar við skoðum þetta hlutfallslega er hækkunin 43% frá árinu 2000 en hvorki meira né minna en 72% frá árinu 2002, en það ár var lægsti húshitunarkostnaðurinn.

Tölurnar eru þessar: 43–72% hækkun að raungildi. Þarna er búið að leiðrétta fyrir verðlagsþróuninni.

Ef við skoðum hins vegar húshitunarkostnað á svæði Orkuveitu Reykjavíkur er myndin allt önnur. Í október 2010 kostaði að kynda sambærilegt hús 93 þús. kr. Gáum þá að því að á dreifbýlissvæði Rariks var kostnaðurinn 238 þús. kr. Það er meira en tvöfaldur kostnaður. Árið 2000 var kostnaðurinn 100 þús. kr. og lægstur 2009 eða 72 þús. kr. Með öðrum orðum, kostnaðurinn lækkaði frá árinu 2000 til ársins 2010 um 28% á sama tíma og hann hækkaði hjá Rarik um 43%. Þetta er þróun sem ég ætla að fullyrða að þingmenn vilja almennt ekki sjá.

Nú vitum við að árað hefur illa hjá ríkissjóði og það hefur dregið úr niðurgreiðslum. Núna ná niðurgreiðslur vegna húshitunarkostnaðar til um það bil 60% af dreifikostnaðinum á orkunni vegna húshitunarinnar. Afgangurinn leggst á þessar fáu hræður, 10% þjóðarinnar, sem búa við þennan mikla húshitunarkostnað.

Það er eiginlega þrennt sem hefur gert það að verkum að mjög hefur slegið í bakseglin varðandi húshitunarkostnað upp á síðkastið. Í fyrsta lagi hafa orkufyrirtækin orðið að hækka taxta, bæði vegna verðlagsþróunar og ýmissa annarra aðstæðna. Í öðru lagi hafa niðurgreiðslurnar sem hafa verið veittar á fjárlögum til að lækka húshitunarkostnaðinn þar sem hann er hæstur verið að lækka að raungildi og þær vigta þess vegna minna inn í verðið en áður. Síðast en ekki síst er það sem menn gleyma; mörkuð hefur verið sú stefna og hún fest í lög á Alþingi að hækka skatta á þessa orkugjafa og orkufyrirtækin. Það hefur bókstaflega stuðlað að því að orkuverðið hefur hækkað.

Þegar við vegum þetta allt saman; hærri taxta vegna verðlagsþróunar, hærri skatta sem ríkisstjórnin hefur beitt sér fyrir að lagðir séu á þessa atvinnugrein og lægri niðurgreiðslur, sjáum við auðvitað í hvað stefnir.

Það vakti athygli mína í drögum að byggðaáætlun sem var síðan samþykkt að þar var rætt um að erfitt yrði að vinna á þessum vanda. Vísað var til þess að menn ættu að reyna að nota aðra orkugjafa og í því sambandi var sérstaklega nefnd uppbygging varmadælukerfis í landinu. Þá fór ég að skoða þessi mál betur og komst að því að þau hafa verið rannsökuð mjög mikið. Orkusetrið á Akureyri hefur til dæmis birt um þetta mikinn fróðleik á heimasíðu sinni þar sem lýsing er á þessu tæknilega verkfæri sem ég ætla í sjálfu sér ekki að fara yfir. Þar kemur líka fram að 95% allra húsa, nýbygginga í Svíþjóð, eru útbúin varmadælum en hér á landi eru þær lítið útbreiddar og mjög lítið notaðar. Ég hygg að ástæðan sé sú að stofnkostnaðurinn við þessi tæki er talsverður. Þótt hann vinnist upp með lægri húshitunarkostnaði þegar fram í sækir veigra mjög margir sér við því að kaupa varmadælur vegna þess að þær kosta mikið í upphafi. Það held ég að sé meginástæðan fyrir því að þær eru minna notaðar. Kannski vantar líka einhverja kynningu á möguleikum þessarar tækni til þess að lækka húshitunarkostnað.

Varmadælurnar bera í fyrsta lagi 25,5% virðisaukaskatt. Almenningur getur ekki fengið hann endurgreiddan í formi innskatts. Í öðru lagi eru lagðir á þær tollar og aðflutningsgjöld. Í þessu frumvarpi er lagt til að það verði gert sérstakt átak í því að auka notkun varmadæla og að heimilt verði að endurgreiða virðisaukaskattinn vegna kaupa á varmadælu og tengdum búnaði til húshitunar. Þessi ívilnun standi í fimm ár. Nú kunna menn að spyrja: Af hverju er þetta ekki gert að varanlegri ívilnun? Í frumvarpinu er reynt að stíga varlega til jarðar og hugsunin er sú að reyna að búa til hvata, hefja átak sem yrði til þess að fólk færi að búa sín hús út með varmadælum. Síðan yrðu menn að meta það er fram í sækti hvort ástæða væri til að gera ákvæðið varanlegt eða lengja í því. Það yrðu menn að skoða.

Hugsunin með því að hafa þetta svona er einmitt sú að reyna að stuðla að sem mestri fjárfestingu í varmadælum til að ná sem mestum árangri í að lækka húshitunarkostnað þar sem þörfin er mest.

Það mælir mjög margt með notkun þessarar tækni. Í fyrsta lagi leiðir hún til þess að húshitunarkostnaður lækkar. Menn hafa nefnt ýmsar tölur í því sambandi en ég ætla í sjálfu sér ekki að flagga þeim. Í öðru lagi stuðlar hún að minni orkunotkun. Við teljum æskilegt að stuðla almennt að því að orkunotkun sé minni, jafnvel þótt við séum að nota vistvæna, sjálfbæra orkugjafa. Allt þetta að mínu mati ætti að vera rök fyrir því að festa frumvarpið í lög.

Síðan vil ég nefna að eftir að þetta frumvarp kom fram hafa mjög margir komið að málum við mig um það og velt því fyrir sér hvort líklegt sé að það verði gert að lögum. Ég hef verið frekar bjartsýnn á það miðað við þær viðtökur sem málið hefur fengið frá upphafi og þann áhuga sem mjög margir hafa á þessu. En tilkoma frumvarpsins hefur líka gert það að verkum að margir hafa hugsað sem svo: Nú er kannski rétt að bíða aðeins átekta, fjárfesta ekki í varmadælum núna heldur bíða og sjá hvort frumvarpið verði að lögum þannig að stofnkostnaðurinn verði ódýrari. Tilvera frumvarpsins kann því að hafa dregið úr fjárfestingum á síðustu árum í varmadælum. Það hefur áhrif á þá sem framleiða þessa gripi á Íslandi eða flytja þá inn. Það er auðvitað mjög óæskilegt að mál af þessu taginu spili rullu í því hvernig mönnum vegnar í atvinnustarfsemi sinni.

Af þeim ástæðum er líka gríðarlega mikilvægt að málið fái afgreiðslu þannig að óvissunni sé aflétt. Ef það er vilji þingsins að mál af þessu tagi nái ekki fram að ganga, menn vilji ekki að þetta verði gert, kemur það einfaldlega fram í atkvæðagreiðslu í þinginu. Ég trúi því þó ekki að svo muni fara, miðað við það sem menn hafa haft orð á í þingræðum og talað um í þeirri nefnd sem hefur haft málið á sínu forræði.

Að lokum vil ég segja eitt í viðbót. Ég nefndi virðisaukann sem er ákveðinn með lögum og þarf þess vegna að flytja um hann frumvarp. Varmadælurnar bera líka tolla og önnur gjöld. Það eru hins vegar reglugerðarmál. Því breytum við ekki í lögum. Það er á forræði hæstv. fjármálaráðherra. Ég vil láta það koma fram sem ég hef áður sagt að ég telji að hæstv. ráðherra eigi samhliða lagabreytingu af þessum toga að tryggja að tollar og önnur gjöld verði felld niður þannig að það verði hámarksvirkni í þeim hvata sem verið er að reyna að búa til til þess að menn fari í þessa fjárfestingu.

Virðulegi forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að málið fari til hv. efnahags- og viðskiptanefndar. Ég vil líka segja að ég tel enga ástæðu til að senda það út til umsagnar. Ég mun óska eftir því sérstaklega við forustumenn nefndarinnar að málið verði tekið fyrir með það í huga að afgreiða það sem allra fyrst af þeim ástæðum sem ég hef þegar rakið. Ég treysti því að það verði gert og trúi því að frumvarpið geti orðið að lögum fyrr en síðar.