141. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2012.

forvirkar rannsóknarheimildir lögreglu.

29. mál
[16:32]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr) (andsvar):

Forseti. Þegar þessi mál voru hér til umræðu fyrr á þessu ári voru ýmsar fréttir í blöðunum sem tengdust málinu og ýmsu öðru. Á fréttavef RÚV 6. mars 2012 kemur fram að lögreglan hafi „sérstakar gætur á ellefu gengjum sem talið er að tengist skipulagðri glæpastarfsemi á Íslandi.“ Þar kemur einnig fram að lögreglan telji „89 meðlimi samtakanna tengda glæpsamlegri starfsemi af einhverju tagi.“ Sama dag var frétt á mbl.is. Þar kemur fram að „á síðastliðnum þremur árum fór lögregla 539 sinnum fram á það við héraðsdómstóla að þeir veittu heimild til símhlerana. Í 533 tilvikum, í yfir 99% tilvika, voru kröfur lögreglu teknar til greina.“ Og samþykktar. Lögreglan veit því nákvæmlega hvaða fólk það er sem er í glæpagengjum og veittar eru heimildir til hlerana síma í 99% tilfella.

Nú vil ég fá að vita hjá flutningsmanni þessarar tillögu: Af hverju ætti ég og aðrir heiðvirðir borgarar í landinu að fórna frelsi okkar og rétti til friðhelgi einkalífs svo að lögreglan fái þessar heimildir?

Það er örugglega þægilegra fyrir lögregluna að geta hlerað hverja sem er, hvenær sem er. En af hverju á ég að fórna frelsinu, sem er eitt það dýrmætasta sem hver einstaklingur í lýðræðisríki á, til að störf lögreglunnar verði auðveldari?