141. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2012.

forvirkar rannsóknarheimildir lögreglu.

29. mál
[16:46]
Horfa

Flm. (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er sammála hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, líklega er best að hafa bæði eftirlitin í gangi samhliða. En ef velja ætti eitt ætti að velja dómstólana en ekki Alþingi. Þetta er eitthvað sem ég treysti að innanríkisráðuneytið skoði og við förum svo yfir hér í þinginu.

Það er alveg rétt, sem fram kom hjá hv. þingmanni, varðandi þessar tölur, og hv. þm. Margrét Tryggvadóttir fór með þær hérna. Lögreglan er að biðja um að fá að fara í hleranir í 539 skipti og fær já í 533 skipti, eða 99%. Hvað segir það? Það segir manni bara að lögreglan er að velja mjög selektívt þegar hún biður um heimildirnar. Dómstólarnir eru sammála mati lögreglunnar og segja: Já, það er brýnt að fara í þessa rannsókn. (Gripið fram í.) Lögreglan er ekkert að fara með eitthvað minni háttar og léttvægt til dómstólanna og biðja um að fara af stað með rannsókn, enda til hvers? Menn eru bara að einbeita sér að brýnustu og erfiðustu málunum og fara í að rannsaka þau. Lögreglan hefur því miður það lítinn mannafla í dag að hún getur ekkert verið að leika sér í einhverjum minni háttar verkefnum. Það eru stór mál sem sitja á hakanum.

Við fengum fulltrúa Stígamóta og Neyðarmóttökunnar í heimsókn í dag í allsherjar- og menntamálanefnd. Það er rosalegur dráttur á rannsóknum á kynferðisafbrotum. Af hverju? Það vantar fólk. Þeir sem vinna í kynferðisafbrotadeildinni fá mjög mikið hól fyrir sína vinnu, frábært fólk, faglegt. Þau eru bara of fá. Lögreglan er þess vegna ekkert að dunda sér í einhverjum málum sem hún þarf ekki að vinna í, það er bara algjörlega fráleitt.

Við framsóknarmenn teljum mjög brýnt að fara í mikla vinnu varðandi öryggi borgaranna. Við erum komin af stað með þessa löggæsluáætlun sem hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson lagði til hér á síðasta þingi. Við vonum að þetta verði samþykkt, þetta mál um heimildirnar. Svo hefur hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson lagt til að skipulögð glæpasamtök verði bönnuð á Íslandi, þar verði bara stuðst við ákvæði í stjórnarskrá.