141. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2012.

forvirkar rannsóknarheimildir lögreglu.

29. mál
[17:04]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Forseti. Mér finnst þessi tillaga í fyrsta lagi allt of víðtæk og allt of loðin.

Bara það sem hér stendur, með leyfi forseta:

„… hafa nágrannaríki okkar aukið heimildir lögreglu til að sporna við henni“, þ.e. skipulagðri glæpastarfsemi. „Í þeim felst að lögreglan fær heimild til að safna upplýsingum um einstaklinga eða lögaðila þótt ekki liggi fyrir rökstuddur grunur um tiltekið afbrot sem framið hefur verið. Rannsókn fer fram áður en brot er framið og markmiðið er að koma í veg fyrir brot.“

Síðan er talað um að: „Rannsóknin beinist að atferli sem talið er ógna almenningi, öryggi ríkisins og sjálfstæði þess.“

Hvað í ósköpunum þýðir þetta? Ég sé ekki neina almennilega skilgreiningu á því. Ég hefði haldið að aðhaldskerfið sem talað er um ætti fyrst og fremst að vera í höndum dómstóla sem veita heimildir til að njósna um einstaklinga í samfélaginu.

Síðan finnst mér mikilvægt að hafa það í huga að fyrrverandi dómsmálaráðherra Íslands, Björn Bjarnason, skilgreindi nýverið mótmælendur sem hryðjuverkamenn. Ég hef ekki bara einu sinni verið skilgreind sem hryðjuverkamaður af þessum fyrrverandi dómsmálaráðherra heldur í tvígang, líka þegar ég var talsmaður fyrir umhverfisverndarsamtökin Saving Iceland. Höfum það í huga að þó svo að lögreglan geri mjög margt gott fór hún gjörsamlega offari gagnvart þessu fólki. Mótmælendur voru handteknir, færðir til lögreglustöðva þar sem þeim var hótað að verða sendir úr landi þó svo að þeir hefðu ekki framið nein afbrot. Áttu þetta að vera forvirkar aðgerðir lögreglu til að tryggja að þeir mundu ekki mótmæla áfram? Þannig var það sumarið 2005 og þannig vil ég aldrei upplifa Ísland aftur.

Þegar þessi sami dómsmálaráðherra fer nú stórum og skilgreinir mótmælendur sem voru fyrir utan Alþingishúsið 2009 sem hryðjuverkamenn finnst mér þessi tillaga enn óhugnanlegri. Gleymum því ekki að í tíð þessa sama dómsmálaráðherra, sem er einmitt nefndur til að gefa þessari þingsályktunartillögu meira vægi, þá var hér á landi erlendur flugumaður, flugumaður lögreglu, sem var plantað í þau sömu grasrótarsamtök og ég var talsmaður fyrir til að breyta eðli samtakanna og njósna um meðlimi. Ekki nóg með það, heldur stundaði hann kynlíf með ungri stúlku sem var í þessum samtökum og það er skilyrðislaust lögbrot. Samt er ekki hægt að fá upplýsingar um hvort þessi maður hafi verið hér með vitneskju íslensku lögreglunnar, en samkvæmt þeim rannsóknum sem hafa átt sér stað, m.a. af hendi þýsks þingmanns, hefur komið í ljós að það er óvefengjanlegt að vitneskja var um þennan mann þegar hann var hér.

Ég segi því enn og aftur: Ekki vil ég gefa lögreglunni meiri heimildir til þess að fara offari ef það koma til dæmis skilaboð frá ríkisstjórn um að ákveðnir einstaklingar í samfélaginu séu óæskilegir eins og mótmælendur.

Síðan langar mig að benda á að hvergi í tillögunni er talað um réttindi þeirra sem eru saklausir og fylgst er með. Hvergi er talað um hvernig þeir fá að vita af því að um þá hafi verið njósnað eða hvort þeir fái bætur fyrir að friðhelgi einkalífs þeirra hafi verið rofin. Hvergi er talað um það fólk. Það er alltaf möguleiki á að lögreglan geri mistök eins og aðrir.

Mig langar líka að benda á það sem kom fram í allsherjar- og menntamálanefnd sem fjallaði um þetta. Á endanum var lögreglan komin það mikið út í horn þegar hún þurfti að rökstyðja af hverju hún þyrfti að fá þetta í gegn að það mátti lesa það úr orðum yfirmanna lögreglunnar, og ég var ekki ein um að upplifa það, að þetta væri í raun og veru bara yfirvarp til að fá sérstaka sjálfstæða íslenska njósnadeild. Ekki get ég stutt það. Ég vil endurtaka að lögreglan fær þær heimildir sem hún þarf í gegnum dómstólana. Það er ekki eins og hana skorti heimildir. Hún hefur líka heimildir til þess að fylgjast með einstaklingum á opnum svæðum á internetinu, getur búið til leynipersónur og átt í samskiptum við fólk þar, það er ágæt leið.

Ég hef lent í því sjálf. Margir þingmenn hafa gantast með það við mig hvort sími minn sé ekki hleraður af CIA og fundist það fyndið. Mig langar að spyrja fólk: Hvernig haldið þið að það sé að upplifa það á hverjum einasta degi að fylgst sé með manni? Haldið þið að það sé eitthvert grín? Það er ekkert grín. Það er kannski svolítið fyndið en það er ekkert grín. Ég hef lent í því að íslensk lögregla hefur fylgst með mér og ég var elt af óeinkennisklæddri lögreglu þegar ég var talsmaður fyrir Saving Iceland og var í slagtogi við „óæskilega“ einstaklinga sem voru mótmælendur frá öðrum löndum. Það er ekkert grín heldur. Við höfum ekki getað fengið upplýsingar þó að einhvers konar kattarþvottarrannsókn hafi átt að fara fram með skýrslu frá Alþingi um hvað gerðist eiginlega sumarið 2005 í kringum Kárahnjúka og mótmælendurna frá Saving Iceland. Það var skammarlegt, það er smánarblettur. Við skulum ekki gera neitt sem tryggir að enginn fylgist með því um hverja er verið að njósna og við skulum ekki gleyma því að alls konar ofsóknir geta átt sér stað gagnvart þeim sem eiga svo sannarlega ekki skilið að brotið sé gegn friðhelgi þeirra.

Svo langar mig að benda á eitt. Mér þótti svolítið merkilegt þegar talað er um forvirkar rannsóknarheimildir hve mikið er talað um Norðurlöndin. Það vildi svo til þegar loftslagsráðstefnan var í Kaupmannahöfn að mótmælendur voru settir í búr sem var liður í forvirkum aðgerðum til að tryggja að þeir mundu ekki mótmæla. Viljum við svona lagað? Viljum við setja fólk í búr svo að það geti ekki mótmælt? Ég vil ekki samanburð við þannig aðgerðir frá félögum okkar annars staðar á Norðurlöndum.

Mig langar að benda á að Norðmenn ákváðu allir sem einn að láta ekki árás Breiviks breyta samfélagi sínu. Af hverju eigum við þá að fara að breyta samfélagi okkar? (Gripið fram í: Heyr, heyr!)