141. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2012.

viðurkenning á þjóðarmorði á Armenum.

187. mál
[17:44]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um viðurkenningu á þjóðarmorði á Armenum. Þetta er afskaplega alvarlegt mál og að mínu mati eru þjóðarmorð verstu glæpir sem við sem mannkyn þurfum því miður að horfast í augu við. Dæmin eru nokkur, til dæmis í Srebrenica í Bosníu 1992–1993, það er alls ekki svo langt síðan og meira að segja í Evrópu. Þau voru í Darfúr 2004, byrjuðu í febrúar 2003 og í Rúanda, gífurleg morð, 800.000 manns drepnir.

Hér er um að ræða þjóðarmorð á Armenum sem voru framin 1915–1917, það er mjög langt síðan. Ég tel mjög brýnt að slíkt sé alltaf fordæmt þannig að þeir sem hyggja á slíkan verknað viti að það verði ekki látið óátalið. Þess vegna fellst ég á það sem segir í þessari tillögu, að mikilvægt sé að láta ekki þjóðarmorð á Armenum liggja í þagnargildi.

Ég styð því tillöguna og mun veita henni brautargengi. Ég veit að það er ekki vinsælt hjá Tyrkjum. Ég veit að þeir hafa neitað þessu. En ég held að þeir þurfi að horfast í augu við þetta nákvæmlega eins og allir aðrir, nákvæmlega eins og ég þarf að horfast í augu við að hafa vitað af því sem gerðist í Srebrenica. Ég vissi það, það var vitað á meðan það gerðist og ég var vanmáttugur til að gera nokkurn skapaðan hlut sem og við öll.