141. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2012.

kosningar til Alþingis.

55. mál
[18:33]
Horfa

Flm. (Valgerður Bjarnadóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka þeim sem hafa tekið til máls um þetta efni. Ég kem fyrst og fremst að því sem kom fram í ræðu hv. þm. Péturs H. Blöndals. Ég hef aldrei viljað gera mikið úr þeim særindum sem verða af því að einn vinnur annan eða kjósendur taka einn fram yfir annan í prófkjörum. Ég held að það yrði ekki breyting á því þótt kosið yrði á milli manna eða valið á milli manna á listum á kjördag. Það verða líka særindi í pólitík ef uppstillingarnefnd tekur einn fram yfir annan. Það vilja fleiri komast að en geta og sama hvort um er að ræða prófkjör, uppstillingu eða ekki. Við komumst aldrei hjá því að einhverjum finnst hann eða hún skilin út undan af einhverjum ástæðum.

Ef ég kem inn á ræðu hv. þm. Illuga Gunnarssonar þá erum við náttúrlega einfaldlega ósammála í þeim efnum. Hann heldur því fram að kjör af því tagi sem hér er talað fyrir breytist meira yfir í persónupólitík en þá pólitík sem við þekkjum. Prófkjörin eru náttúrlega líka persónupólitík og ég sé ekki að gallinn sé meiri í því kerfi sem hér er mælt fyrir.

Ég vil hins vegar gera athugasemd við það yfirlæti sem gjarnan kemur fram þegar minnst er á að þingmenn eru almennt íhaldssamir. Það er bara staðreynd, þeir eru það og eru almennt íhaldssamir á það kerfi sem við búum í. Það er ekkert öðruvísi með þingmenn, virðulegi forseti, en annað fólk, flestir eru svolítið íhaldssamir á það umhverfi sem þeir þekkja og lifa í. Það er ekki þar með sagt að þingmenn séu með þeirri íhaldssemi að verja einhverja hagsmuni, verja sig eða hafi eitthvað óhreint í pokahorninu. Þegar bent er á að við í þessum sal séum íhaldssöm á að breyta miklu í kringum okkur vil ég gera athugasemdir við að þá sé verið að ýja að því að stjórnmálamenn séu að verja sinn hag á einhvern hátt og séu með eitthvað óhreint í pokahorninu.

Við hv. þm. Illugi Gunnarsson erum hjartanlega sammála um að prófkjörin voru til batnaðar og breyttu pólitíkinni mikið til batnaðar, um það erum við sammála.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri en vil þó segja að þetta frumvarp er lagt fram af okkur tólf þingmönnum og mér finnst það líka lýsa þessari óskaplegu ímyndun sem oft ríkir hér að segja að það þýði að eitthvað mikið sé á seyði af því að það eru „bara“ þingmenn Samfylkingar og Hreyfingar á málinu (Gripið fram í: Vinstri grænna.) og þar með þurfi að lesa einhvern draugagang út úr því. Ég vil taka fram að svo er ekki, virðulegi forseti.