141. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2012.

gagnger endurskoðun á skipulagi og forsendum hvalveiða.

83. mál
[18:38]
Horfa

Flm. (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Ég mæli fyrir þessu máli sem við flytjum þrjú, hv. þingmenn Árni Þór Sigurðsson og Birgitta Jónsdóttir auk mín. Árni Þór Sigurðsson er 1. flutningsmaður en þurfti að fara annað og ég hleyp því í skarðið fyrir hann.

Fyrst er að geta þess að þetta mál var fyrst flutt í fyrra, komst þá ekki á dagskrá en er nú endurflutt í nær óbreyttri mynd. Ég ætla að skjótast í gegnum greinargerðina.

Þar segir fyrst frá því að í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem nú situr er mörkuð ákveðin stefna um nýtingu sjávarspendýra. Þar er kveðið á um réttinn til veiða á meðal annars hval og sel, með leyfi forseta: „Íslendingar áskilja sér hér eftir sem hingað til rétt til nýtingar sjávarauðlinda samkvæmt alþjóðlegum skuldbindingum.“ Hins vegar er þar kveðið á um að nauðsynlegt sé að endurmeta hvernig Íslendingar hyggist nýta sér þennan rétt sinn og segir í stefnuyfirlýsingunni, með leyfi forseta:

„Forsendur fyrir veiðum og nýtingu sjávarspendýra, sela og hvala, verði endurmetnar frá grunni með tilliti til sjálfbærni og efnahagslegrar þýðingar fyrir þjóðarbúið í heild sem og alþjóðlegra skuldbindinga og ímyndar Íslands.“

Í greinargerðinni segir frá því að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sem þá var lagði fram á 138. löggjafarþingi frumvarp sem hafði það yfirlýsta markmið að stuðla að verndun hvala samhliða hagkvæmri og sjálfbærri nýtingu hvalastofna. Það mál var heldur ekki útrætt og hefur ekki verið endurflutt en í erindum og umsögnum var meðal annars fundið að því að í þessu frumvarpi fælist ekki það endurmat á forsendum fyrir nýtingu á sjávarspendýrum sem kveðið var á um í stjórnarsáttmálanum. Þess í stað var því áréttað vald ráðherra til að ákveða hvort hvalveiðar væru stundaðar og í hve miklum mæli en að öðru leyti var gengið út frá að núverandi tilhögun þessara mála væri viðunandi. Við flutningsmenn erum ekki á því máli. Nú ætla ég að lesa úr greinargerðinni, með leyfi forseta:

Ekki liggja fyrir tölur um tekjur af útflutningi hvalkjöts, sem hefur aðeins verið til Japans. Sumarið 2007 ákvað þó þáverandi sjávarútvegsráðherra að gefa ekki út leyfi til hvalveiða. Rökstuddi hann ákvörðun sína með því að ekki hefði tekist að selja íslenskt hvalkjöt til Japans veturinn á undan. Ekki er að sjá sem það hafi verið vegna aukinnar sölu á hvalkjöti þangað sem leyfi til hvalveiða voru aftur gefin út í janúar 2009. Í þeirri endurskoðunarvinnu sem hér er lagt til að ráðist verði í þarf m.a. að kanna hvort Ísland og ímynd þess hafi orðið fyrir skaða vegna veiðanna og hvaða áhrif þær hafa haft á fiskútflutning til ríkja þar sem hvalveiðar eru illa þokkaðar. Ljóst er að það spillir jafnan fyrir hagsmunum íslenskra útflutningsgreina þegar stjórnvöld heimila hvalveiðar á ný, svo sem var um markaðskynningu á íslenskum búvörum hjá Whole Foods í Bandaríkjunum sællar minningar 2006 og 2009. Því er ekki að sjá sem þeir fjármunir sem íslensk stjórnvöld hafa veitt í að kynna meinta hvalveiðistefnu Íslendinga og afla henni skilnings og fylgis hafi nýst vel.

Samkvæmt skýrslu sem Sjónarrönd ehf. vann fyrir IFAW (International Fund for Animal Welfare) sem er Alþjóðasjóðurinn til velferðar dýra, á Íslandi og Náttúruverndarsamtök Íslands árið 2007 um útgjöld íslenskra stjórnvalda til hvalveiða og tengdra verkefna á árunum 1990 til 2006 höfðu þau varið um það bil 750 millj. kr. til málaflokksins á tímabilinu, þar af 197 millj. kr. til almannatengsla og markaðssetningar, einkum á síðustu árum þessa tímabils, 1990–2006. Til samanburðar var á svipuðum tíma varið 351 millj. kr. til þess að kynna íslenskt lambakjöt og aðrar búvörur á erlendri grund. Það er merkilegt að það var tvöfalt hærri fjárhæð sem varið var til að verja hvalveiðar en til að selja lambakjöt.

Enn fremur segir í greinargerðinni að við þá endurskoðun á lögum sem varða hvali, sem hér er lagt til að ráðist verði í, þarf að huga að grunnforsendum nýtingar á þeim. Því ber að kanna hvort ekki eigi fremur að ganga út frá friðun þeirra sem almennri reglu, sem gera megi undantekningar á, í stað þess að gera ráð fyrir hvalveiðum og setja svo reglur og lög um tilhögun þeirra. Þá nálgun má m.a. finna í lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, nr. 64/1994, en þar segir í 1. mgr. 2. gr.:

„Markmið laga þessara er að tryggja viðgang og náttúrulega fjölbreytni villtra dýrastofna, skipulag á veiðum og annarri nýtingu dýra, svo og aðgerðir til þess að koma í veg fyrir tjón sem villt dýr kunna að valda.“

Í samræmi við það ætti því að fella út 2. mgr. 2. gr. en þar segir: „Ákvæði laga þessara taka hvorki til hvala né sela en um þær tegundir gilda sérstök lög.“

Því er við þetta að bæta að þessi háttur á Íslandi virðist endurspegla að íslensk náttúra sé í raun og veru aðeins á landi og íslensk dýr séu eiginlega bara til þegar fjörunni sleppir. Þegar komið er niður í fjöruna og út á hafið séu þau lögmál og viðhorf úr gildi fallin sem gilda um dýr og náttúru á landi og við taki eingöngu nýtingarsjónarmið og þau oft mjög skammsýn.

Í greinargerðinni stendur enn fremur, með leyfi forseta, að í umsögn Náttúruverndarsamtaka Íslands um áðurnefnt frumvarp um hvali frá 138. þingi hafi verið bent á að Hafrannsóknastofnunin hefði reiknað ráðlagðan hrefnuveiðikvóta í samræmi við ráðgjöf vísindanefndar NAMMCO, sem nyti ekki alþjóðlegrar viðurkenningar, ólíkt vísindanefnd Alþjóðahvalveiðiráðsins. Kanna þyrfti hvort slíkt vinnulag, þar sem Ísland velur sér vísindalega ráðgjöf eftir því sem hentar hverju sinni, geti talist vera í þágu heildarhagsmuna Íslands, sem og hver árangurinn hafi verið af starfi NAMMCO. Í greinargerð Gunnars G. Schrams og Davíðs Björgvinssonar fyrir forsætisráðuneytið, Hvalveiðar Íslendinga í ljósi þjóðaréttar, sem unnin var 1993, ári eftir stofnun NAMMCO, er hugað að því hvaða þýðingu alþjóðlegar skuldbindingar Íslands hafa í þessu samhengi. Með aðild að Hafréttarsáttmálanum er, að áliti Gunnars og Davíðs, „sú skylda lögð á ríki að starfa saman að verndun og stjórnun hvalastofnanna. Í því felst að ríki getur ekki ákveðið veiðar að eigin geðþótta. Til þarf að koma ákvörðun viðeigandi alþjóðastofnunar. Því má tvímælalaust halda fram að „viðeigandi“ alþjóðastofnun sé, að því er hvali varðar, Alþjóðahvalveiðiráðið, sem fjallar um stjórnun og verndun hvala um allan heim.“

Aðild Íslands að Dagskrá 21 áréttar þessa stöðu enn frekar. Alþjóðlegir samningar sem þessir, auk aðildar Íslands að Bernarsamningnum, Samningnum um líffræðilega fjölbreytni (CBD) eða Samningnum um alþjóðaverslun með tegundir dýra og plantna sem eru í útrýmingarhættu (CITES) og þær lagalegu skuldbindingar sem þeim fylgja þyrftu að liggja allri hérlendri löggjöf um nýtingu hvala og annarra sjávarspendýra til grundvallar.

Þess má geta, forseti, að í fylgiskjali er merkileg grein eftir Árna Finnsson frá 3. september 2009 um markað fyrir hvalkjöt í Japan sem hefur verið eitt af kjarnamálunum í þessu álitamáli. Í framhaldi af því er rétt að geta þess að hvalkjöt hefur ekki selst í Japan eða verið flutt þangað um hríð, hverju sem þar er um að kenna, og væri þörf á því að taka umræðu um það þó síðar verði.

Í því sambandi skal þess getið að flutningsmenn tillögunnar leggja einnig fram á þessu þingi frumvarp og reyndar hinu síðasta líka þar sem gert er ráð fyrir að selur falli undir lög nr. 64/1994, um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum. Þeir hafa líka lagt fram tillögu um að stofnuð verði griðasvæði fyrir hvali í Faxaflóa og fyrir Norðurlandi eða aukin frá því sem nú er.

Að lokum legg ég til, forseti, að að lokinni þessari umræðu gangi málið til 2. umr. og til hinnar háu umhverfis- og samgöngunefndar.