141. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2012.

gagnger endurskoðun á skipulagi og forsendum hvalveiða.

83. mál
[18:52]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Nei, ég veit ekki til þess að neitt hafi breyst í þeim stjórnarráðsskrifstofum sem einkum lúta að sjávarútvegsmálum. Það sem hefur hins vegar gerst að undanförnu, og hv. þingmaður veit um, er það að skipting skrifstofanna í ráðuneyti er önnur og það sem áður hét umhverfisráðuneyti heitir núna umhverfis- og auðlindaráðuneyti og á ákveðinn þátt í stjórnun Hafrannsóknastofnunar. Það mál hef ég rætt við aðra umræðu og ætla ekki að fara að endurtaka það í þessu andsvari.

Um verðmæti þau og þjóðarhag sem skapast hefur af hvalveiðum er það að segja að það er eitt af þeim rannsóknarefnum sem ættu að liggja til grundvallar við þá endurskoðun sem við förum fram á.

Ég vil svo bara taka undir með hv. þingmanni, biðjast afsökunar á því að hafa kallað ríki þjóðir því að ríki er ríki og þjóð er þjóð. Evrópusambandið er vissulega bandalag ríkja en í þessum ríkjum búa þjóðir þannig að það hlýtur að verða afsakað þó að þessi orð séu stundum notuð sem samheiti sem þau eru sem sé ekki að öllu leyti.

Hitt er svo rétt aðfinnsla hjá hv. þm. Pétri Blöndal að það er alltaf varasamt að tala um vinaþjóðir. „La France n'a que ses intérêts,“ held ég að de Gaulle hafi sagt, að Frakkland ætti sér bara hagsmuni og enga vini, ekkert hatur og engar ástir. Það er auðvitað ein leiðin til að horfa á hlutina en ég hygg að við eigum ekki að láta af þeim huggulegheitum sem felast í því að kalla helstu grannþjóðir okkar vinaþjóðir, þó að hinn kaldi raunveruleiki kunni að vera annar þegar til stykkisins kemur.