141. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2012.

gagnger endurskoðun á skipulagi og forsendum hvalveiða.

83. mál
[19:05]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Eins og þingmaðurinn veit lagði ég tvívegis fram ríkisstjórnarfrumvörp til laga um hvali sem ríkisstjórnin samþykkti. Þau frumvörp voru einmitt samin með tilliti til þeirra ákvæða sem hv. þingmaður nefndi í samstarfsyfirlýsingu flokkanna enda hefðu þau væntanlega ekki farið í gegnum ríkisstjórnina athugasemdalaust ef svo hefði ekki verið.

Til að uppfylla þau skilyrði sem þarna eru nefnd, um að fara yfir og endurmeta hagræna þætti í þessu, þá ákvað reyndar fyrirrennari minn í tíð minni hluta ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna að óska eftir því við Hagfræðistofnun að hún gerði úttekt sem lyti að þeim þáttum sem hv. þingmaður hefur verið að vitna til, þ.e. áhrifum á aðra þætti eins og ferðaþjónustu, markaðssetningu sjávarafurða o.fl. Óskað var eftir úttekt hjá Hagfræðistofnun á því og sú skýrsla var kynnt á þinginu og höfð til viðmiðunar við samningu þessa frumvarps um hvali.

Eins og hv. þingmaður víkur réttilega að er lögð áhersla á að Íslendingar áskilji sér hér eftir sem hingað til rétt til nýtingar sjávarauðlinda samkvæmt alþjóðlegum skuldbindingum, þ.e. sjálfbærrar nýtingar sjávarauðlinda og hvalurinn er hluti af sjávarauðlindinni. Það hefur í sjálfu sér ekkert breyst í þeim efnum.