141. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2012.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um Oracle-kerfið.

[13:44]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Undanfarna daga hefur mikið verið rætt um skýrslu Ríkisendurskoðunar í tengslum við svokallað Oracle-kerfi og drátt á skilum Ríkisendurskoðunar á skýrslu um það. Er ekki fyrirsjáanlegt hvernig allt það mál endar en ég hygg þó að þar eigi margt eftir að skýrast áður en niðurstaða fæst.

Ég ætla að beina spurningu til hæstv. atvinnuvegaráðherra, sem áður var fjármálaráðherra í þrjú og hálft ár, um þetta Oracle-kerfi. Sá sem sá um innleiðingu kerfisins var Fjársýsla ríkisins sem er stofnun á vegum fjármálaráðuneytisins og heyrir beint undir ráðherra. Ég er að velta fyrir mér hvort hæstv. ráðherra getur upplýst okkur um það hvort honum var kunnugt um vandamál í sambandi við innleiðingu þessa kerfis, hvort honum var kunnugt um þann stóraukna kostnað sem féll til vegna þessa kerfis frá ári til árs og hvort hann hafi gripið til einhverra ráðstafana í ráðherradæmi sínu (Forseti hringir.) vegna þessarar vitneskju.

(Forseti (ÁRJ): Forseti vill vekja athygli á því að klukkan lætur ekki alveg að stjórn hér, en tímamæling fer fram í forsetastóli. Kannski er hún farin að virka.)