141. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2012.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um Oracle-kerfið.

[13:45]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Nei, ég þekkti ekki forsögu þessa máls og hafði engin gögn á mínum borðum, það ég best man, um tilurð þessa eða sögu þó að eitthvað vissi ég auðvitað af því á sínum tíma sem þingmaður á Alþingi að það var verið að innleiða einhvers konar nýtt kerfi til að halda utan um fjárhagsbókhald ríkisins. Ég fékk engar ábendingar um að þarna væri eitthvað alvarlegt að og vissi hvorki af því að á þessum árum hefði verið í vinnslu og smíðum skýrsla sem tæki á því hvernig þetta bar að í byrjun og kostnaðinum sem tengdist þessum upphaflegu ákvörðunum né því hvernig málið hefði þróast að öðru leyti en einu, að við fjárlagagerð, sennilega fyrir árið 2011, var gert ráð fyrir einhverjum kostnaði vegna uppfærslu ýmissa hugbúnaðarkerfa, þar á meðal þessa kerfis. Af þeim sökum var mér kunnugt um að það þyrfti að ráðast í einhverjar aðgerðir til að uppfæra búnað en því fylgdu ekki aðrar skýringar það ég best man en að um væri að ræða hefðbundna uppfærslu sem reglubundið væri framkvæmd.

Þess vegna er afar miður og dapurlegt að fá tveimur til þremur árum síðar fréttir af því að um árabil hafi verið í skoðun vandamál sem þarna voru á ferðinni hjá Ríkisendurskoðun án þess að það yrði gert opinbert eða kæmi fram í dagsljósið. Það eru mér örugglega jafnmikil vonbrigði og hverjum öðrum hér í þessum sal að þannig skyldi takast til af hálfu Ríkisendurskoðunar.