141. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2012.

refsiaðgerðir ESB gegn Íslendingum vegna makríldeilunnar.

[14:03]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Þann 25. september síðastliðinn voru samþykktar af ráðherraráði Evrópusambandsins refsiaðgerðir sem öllum er ljóst, og það er staðfest af sjávarútvegsstjóra Evrópusambandsins, að er meðal annars beint gegn Íslandi og Færeyjum vegna makríldeilunnar. (SDG: Voru …?) Voru settar þá. Verið er að vinna í að þeim verði beitt. Maria Damanaki, sjávarútvegsstjóri Evrópusambandsins, lét hafa það eftir sér að hún ætli að mæta á fund strandríkja í október með reglugerðina í farteskinu. Eftirfarandi er haft eftir henni beint á vefsíðu hennar: Það ætti að vera ljóst núna að okkur er full alvara og að við getum knúið slíkt fram.

Ríkisstjórn Íslands hefur ekki enn mótmælt setningu þessara reglna með formlegum hætti. Hv. þm. Árni Þór Sigurðsson, formaður utanríkismálanefndar Alþingis, fór í gær á fund utanríkismálanefndar eða Evrópunefndar Evrópusambandsins og umsóknarríkja og mótmælti þessum fyrirætlunum.

Ég spyr hæstv. atvinnuvegaráðherra: Er þetta vísbending um það sem koma skal? Eigum við von á því að ríkisstjórnin mótmæli með formlegum hætti? Mér þykir ekki nóg að það sé gert á vettvangi þingsins þótt ég fagni skrefi hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar, mér finnst ekki nóg að það sé nefnt á sameiginlegum fundi EFTA- og EES-nefndarinnar. Ég vil að íslenska ríkisstjórnin mótmæli þessu með formlegum hætti þannig að hæstv. ráðherra mæti ekki á fund strandríkja í október algjörlega óvopnaður þegar næst rætt verður um makríldeiluna. (Forseti hringir.)

Ég spyr hæstv. ráðherra: Hyggst ríkisstjórnin mótmæla þessu formlega? Hefur það verið rætt í ríkisstjórn? Er einhver á móti því að það verði gert?