141. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2012.

refsiaðgerðir ESB gegn Íslendingum vegna makríldeilunnar.

[14:05]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það gætir smámisskilnings í máli fyrirspyrjanda vegna þess að íslensk stjórnvöld hafa þegar mótmælt. Þegar hafa mótmælaorðsendingar verið lagðar fram á viðkomandi vettvangi þar sem varað er við því og bent á að heimildir sem nú hafa verið teknar upp í regluverk Evrópusambandsins um refsiaðgerðir vegna þess sem þeir kjósa að skilgreina sem ósjálfbærar veiðar úr stofnum, geti gengið lengra ef þeim er beitt til fulls en reglur Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar og EES-samningurinn og bókun 9 heimila. Á að minnsta kosti tvennum vettvangi ef ekki þrennum hefur þessu formlega verið mótmælt með orðsendingu sem útbúin var sameiginlega af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti og utanríkisráðuneyti. Þetta fer í EES/EFTA- og ESB-farveginn annars vegar og alþjóðaviðskiptastofnunarfarveginn hins vegar.

Síðan hefur því að sjálfsögðu einnig verið mótmælt í viðtölum við fjölmiðla og með ýmsum öðrum hætti og í gegnum utanríkisþjónustuna eins og eðlilegt er.

Það er að sjálfsögðu til fyrirmyndar að formaður utanríkismálanefndar haldi þessu merki líka á lofti. Hann hefur notað þau tækifæri sem hann hefur haft, þar á meðal á fundinum núna á Kýpur, til að koma sjónarmiðum okkar skýrt á framfæri í þessum efnum. Sömuleiðis mun málflutningur okkar á haustfundi samstarfsríkja um sjávarútveg við Norður-Atlantshaf byggja á þessu hinu sama. Þar verða sjónarmið okkar reifuð og rakin í sambandi við makríldeiluna, við munum leggja þar áherslu á nauðsyn þess að efla rannsóknir og undirbyggja betur stofnstærðarmat og gagnrýna þátttökuleysi Evrópusambandsins til dæmis í því að leggja sitt af mörkum í sameiginlegum rannsóknum strandríkjanna. Við munum sömuleiðis hafa uppi sambærilegan málflutning um það að hótun um beitingu viðskiptaþvingana geri ekkert annað en að spilla fyrir í þessari deilu, dragi úr líkum á farsælli lausn hennar (Forseti hringir.) og að við munum aldrei sætta okkur við beitingu ólögmætra aðgerða.