141. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2012.

fyrirgreiðsla ríkisins við fjármálafyrirtæki og stofnanir í kjölfar bankahrunsins.

[14:23]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Ég sakna þess þó að hæstv. ráðherra skyldi ekki fara inn á neyðarlögin sem mér skilst að hafi verið einn af útgangspunktum þess hv. þingmanns sem hóf þessa vegferð. Ekki er nokkur vafi á því að það var afskaplega skynsamlegur gjörningur sem sýnir sig kannski best í því að það er það eina sem núverandi hæstv. ríkisstjórn hreykir sér af á erlendum vettvangi þegar kemur að hruninu og viðbrögðum við því. Hins vegar reyndi sú ríkisstjórn að koma þeim sem báru ábyrgð á þeim neyðarlögum í fangelsi og notuðu peninga skattgreiðenda til þess.

Hæstv. ráðherra talaði um evruna eins og hún sé algerlega ókeypis og ég skil ekki af hverju hæstv. ráðherra gerir það. Það hefur verið reiknað út að það séu um 115 milljarðar sem Íslendingar þurfi að greiða til að viðhalda evrunni eða vera í Evrópusambandinu og það er ekki hægt að senda evruþjóðum þann reikning. Að auki kostar klúbbgjaldið í Evrópusambandið 9–11 milljarða á ári þannig að það er mjög hæpið að leggja þetta upp með þessum hætti. Enn eru evruþjóðir að greiða peninga til þýskra og franskra banka undir þeim formerkjum að verið sé að bjarga ítalskri, grískri eða spænskri þjóð.

Í mars 2009 lýsti hæstv. ríkisstjórn því yfir að ekki yrðu nein frekari áföll á íslenskum fjármálamarkaði. Síðan hafa reikningarnir í milljörðum talið dottið inn til skattgreiðenda, þeir stærstu einstöku tengjast SpKef. Það hefur verið staðfest í svörum til mín að þar var bankinn látinn fara fram án þess að uppfylla lögbundin eiginfjárhlutverk og í fullri samkeppni við aðra. Það er ekki rétt, sem hv. þm. Magnús Orri Schram segir, að hann hafi ekki verið endurreistur. Það var reynt að endurreisa hann og reynt að halda í honum lífi en því miður tókst það ekki. Við verðum að skoða vinnubrögðin í því máli. Þau svör sem hafa komið fram til þessa hafa verið algerlega (Forseti hringir.) ófullnægjandi.

Ég get því miður ekki farið frekar yfir það hvað hefur gerst eftir hrun í þessari stuttu ræðu minni. (Forseti hringir.) Þau mál verðum við að skoða verulega vel. Vinnubrögðin þar hafa kostað skattgreiðendur tugi milljarða.