141. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2012.

fyrirgreiðsla ríkisins við fjármálafyrirtæki og stofnanir í kjölfar bankahrunsins.

[14:28]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Magnúsi Orra Schram fyrir að vekja máls á þessari skýrslu sem ég óskaði eftir í upphafi síðasta árs að yrði gerð af hálfu Ríkisendurskoðunar um að skoða stjórnvaldsathafnir sem hafa falið í sér beinar eða óbeinar fjárveitingar til fyrirtækja úr ríkissjóði í kjölfar bankahrunsins. Eins og hér hefur komið fram erum við að tala um gríðarlega háar upphæðir í því samhengi.

Meðal þeirra verkefna sem stjórnvöld fara með er umboð frá borgurum þessa lands, vald til að ráðstafa fé og verðmætum. Af þeim sökum verður að krefjast þess að stjórnvöld veiti fyrirtækjum aðeins fjárframlög eða fjárhagslegar ábyrgðir eftir ígrundað mat og á fullkomlega lögmætum grunni. Ég verð að vera hreinskilinn með það að mér finnst skorta, rétt eins og í aðdraganda hrunsins, á gagnrýna hugsun Ríkisendurskoðunar þegar þessar stjórnvaldsathafnir hafa verið skoðaðar. Ég tel að við þurfum að fara með miklu ítarlegri hætti ofan í það hvað orsakaði hrunið og hvernig við ætlum að byggja okkur upp í framhaldi af því.

Ég hef velt fyrir mér þessari spurningu: Hver er kostnaður heimilanna vegna stjórnvaldsákvarðana? Hverjir voru það sem keyptu bankana á sínum tíma? Var það virkilega svo að kröfuhöfum og vogunarsjóðum voru afhentar skuldir íslenskra heimila með miklum afslætti, skuldir sem verið er að innheimta af fullum krafti? Eru þetta ekki spurningar sem við þurfum að svara í kjölfar þess hruns sem blasir við okkur í dag og við erum vonandi að koma okkur upp úr? Þessum spurningum er ekki svarað í skýrslunni.

Við framsóknarmenn viljum halda áfram að skoða þessi mál vegna þess að það er ekki sama hvernig ríkisstjórn, sama hvernig hún er skipuð, framkvæmir hlutina. Ég tel meðal annars að ein stærsta einkavæðing seinni tíma, sem var einkavæðing stóru bankanna, hafi ekki verið gerð með réttmætum hætti. Ekki hafa öll spil verið lögð á borðið í því ferli og það er ljóst að það eru heimilin í landinu sem greiða stærsta reikninginn vegna þeirrar framkvæmdar.