141. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2012.

fyrirgreiðsla ríkisins við fjármálafyrirtæki og stofnanir í kjölfar bankahrunsins.

[14:33]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Eins og aðrir vil ég þakka fyrir þessa ágætu umræðu. Hún er þörf og við þurfum fleiri slíkar. Eftir því sem fleiri kurl koma til grafar þeim mun betur vitum við um hvað málið snýst.

Nú hefur þessi ríkisstjórn bráðum starfað í fjögur ár og gert ýmislegt. Margt hefur ekki gengið eins og best verður á kosið. Hér hafa verið nefnd stikkorð eins og Sparisjóður Keflavíkur, Saga Capital — FIH vantar, staðan á danska bankanum sem var að veði. Þar kemur inn í hugtak eins og „Pandóra“. Ekki má gleyma Icesave sem sem betur fór tókst að venda okkur frá, Sjóvá hefur verið nefnt o.s.frv. Það eru mörg stikkorðin sem þessi ríkisstjórn hefur skapað.

Seðlabankinn er mjög stór aðili og ég held að við þurfum að fara að skoða hvort hann eigi að geta veitt ríkisábyrgðir algerlega stjórnlaust frá valdi Alþingis til að takmarka útgjöld og ábyrgðir ríkissjóðs. Ég legg til að menn fari að skoða það.

Ef annar gjaldmiðill hefði verið í gangi, segjum til dæmis evran, hefðu fyrirtæki farið á hausinn í stórum stíl. Skuldir hefðu ekki verið lækkaðar sjálfvirkt með því að lækka krónuna. Útflutningur hefði ekki styrkst eins og gerðist með sjávarútveg og ferðaþjónustu og við hefðum sennilega fengið atvinnuleysi og þá er ég að tala um 10–20% atvinnuleysi. Innstæður hefðu haldið verðgildi sínu, 2.000 milljarðar hefðu farið upp í 3.000 milljarða að núgildi. Þær voru lækkaðar í evrum. Þetta bætti stöðu útflutnings þannig að annar gjaldmiðill hefði sennilega gert stöðuna miklu verri.

Við þurfum að fara að skoða það að tileinka okkur meiri aga í fjármálum, hindra hringferla fjár eins og ég hef margoft bent á og gæta þess hvar er raunveruleg ríkisábyrgð.