141. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2012.

fyrirgreiðsla ríkisins við fjármálafyrirtæki og stofnanir í kjölfar bankahrunsins.

[14:36]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem fer fram um þetta mál sem er hluti umræðunnar um uppgjörið við hrunið hér í þinginu. Ég vil taka undir það sem kom fram hjá hv. þm. Birki Jóni Jónssyni hér áðan um nauðsyn þess að halda áfram að ræða þessi mál og skoða þau til hlítar til að komast að því hvað olli því sem gerðist hér haustið 2008 með falli allra bankanna. Þó að ítarleg gögn liggi nú fyrir um það — meðal annars níu bindi af rannsóknarskýrslu þingsins, þar sem gefin er nokkuð góð mynd af því sem gerðist — er umræðan ekki síður nauðsynleg til að hjálpa okkur við að vinna úr því.

Mér hefur stundum fundist það brenna við í þinginu að menn haldi að val hafi staðið um að bregðast við eða ekki, að kostnaðurinn sé annars vegar kostnaður við hrunið og hins vegar kostnaður við að bregðast við hruninu. Það er ekki niðurstaða þeirrar skýrslu sem hér er til umræðu og það er ekki heldur niðurstaða stjórnmálanna. Ef við lítum til þeirra aðgerða sem gripið var til haustið 2008 í þessum sal, gríðarlegra aðgerða — meðal annars til að fjármagna nýju bankana þrjá, viðskiptabankana, með fjárlagagerðinni fyrir árið 2009, þar sem veitt var heimild sem jafngilti næstum því öllum útgjöldum íslenska ríkisins það ár, til að bregðast við falli bankanna sömuleiðis, og þá Seðlabankans ekki síður — og í kjölfarið það sem hefur þurft að gera varðandi þau mál sem upp hafa komið og réttilega er minnst á hér og eru fylgifiskur þess sem kannski má rekja rætur alls þessa til, þ.e. einkavæðingar bankakerfisins, þar sem menn hirtu ekki um að aflétta ríkisábyrgð af eigum sem voru færðar til einkavina flokkanna á þeim tíma; þær féllu allar í hausinn á okkur með pompi og pragt og gera reyndar enn.

Þetta er reyndar umræða sem við eigum að taka reglulega eins og hv. þingmaður nefndi áðan til að reyna að brjóta það til mergjar (Forseti hringir.) hvað gerðist eftir hrun, hvernig við höfum brugðist við og hvað hefði mátt gera betur. En þó fyrst og fremst til að (Forseti hringir.) komast að þeirri augljósu niðurstöðu að það var ekki gjaldmiðillinn sem var vandkvæðið heldur stjórnmálamennirnir (Forseti hringir.) sem kunnu ekki að stjórna honum.