141. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2012.

Byggðastofnun.

162. mál
[14:54]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Eðlilega tapar Byggðastofnun fé. Þetta er félagsleg stofnun, hún lánar til þeirra sem ekki fá lán annars staðar og þess vegna er eðlilegt að mínu mati að hún tapi. Ég hef svo sem ítrekað það margoft og mun ítreka það hér með að ég legg til að þessi stofnun verði lögð niður eða seld til að einhver endir verði á því.

Hvað varðar ríkisábyrgðina þá vil ég spyrja hæstv. ráðherra nánar út í það. Samkvæmt stjórnarskrá er óheimilt að greiða fé úr ríkissjóði nema þess sé getið í fjárlögum eða fjáraukalögum. Ég man ekki til þess að skuldbindingar Byggðastofnunar sem og Íbúðalánasjóðs og fleiri opinberra stofnana standi í fjárlögum eða fjáraukalögum. Ef það stendur einhvers staðar í fjárlögum eða fjáraukalögum vildi ég að hæstv. ráðherra benti mér á það.

Og ef til kastanna kæmi að einhver ætlaði að fara að innheimta fé hjá Byggðastofnun og mikil vandræði steðjuðu að ríkissjóði og hæstv. framtíðarfjármálaráðherra segði nei af því að þetta standi ekki í fjárlögum eða fjáraukalögum, þá er ég ansi hræddur um að sú leið yrði ekki til fjár.