141. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2012.

Byggðastofnun.

162. mál
[15:42]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að fá að bæta við nokkrum spurningum til hæstv. ráðherra. Í máli hans kom fram að hann teldi að í raun mætti skipta starfsemi Byggðastofnun í tvennt. Hann talaði um að hann teldi mögulegt að koma rannsóknar- og greiningarþættinum hjá Byggðastofnun fyrir annars staðar og aðskilja frá lánastarfseminni. Hefur hann þá í huga ákveðið samstarf við háskóla og einhvers konar tengingu við 20/20 sóknaráætlunina?

Maður veltir því líka fyrir sér, í framhaldi af þessari umræðu, hvort ástæða væri til að skoða það sem hefur verið einna umdeildast í starfsemi Byggðastofnunar, þ.e. þessar lánveitingar, og hvort ríkið gæti frekar veitt ábyrgðir. Eins og hv. þm. Pétur Blöndal benti á eru ríkisábyrgðir á bak við starfsemi Byggðastofnunar, það væru almennar lánastofnanir sem sæju um að veita þessi lán en ríkið kæmi þá til og mundi veita ákveðna ábyrgð og mundi hugsanlega losna við þessa áhættu sem við höfum séð á undanförnum árum varðandi fjármögnunina á þeim lánum sem Byggðastofnun hefur verið að taka og tengist jafnvel gengisáhættu eins og hún var að fjármagna sig.

Ég spyr líka hvort ráðherrann hafi rætt eða skoðað eitthvað möguleikana á samstarfi eða sameiningu lánastarfseminnar við sparisjóðina. Ég kom líka inn á möguleikana á því að reyna að horfa á byggðaaðgerðir meira út frá skattkerfinu eða jafnvel, eins og maður þekkir líka frá Noregi, í formi lægri endurgreiðslu á námslánum. Hvaða skoðun hefur ráðherrann á því?