141. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2012.

Byggðastofnun.

162. mál
[15:51]
Horfa

Arnbjörg Sveinsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég heyri að komin er upp umræða innan stjórnkerfisins um að nú þegar búið sé að endurskipuleggja ráðuneytin eigi að fara að endurskipuleggja stofnanakerfið. Það væri áhugavert að heyra hvort eitthvert raunverulegt starf sé komið í gang varðandi það hvort skipta eigi upp Byggðastofnun, þ.e. annars vegar fræðilega hlutanum, þjóðhagshluta Byggðastofnunar, sem er kannski ekki nógu öflugur eins og fram kom í máli manna áðan, en mætti vera það, og hins vegar lánastarfsemi Byggðastofnunar. Fyrr á árum veitti Byggðastofnun einnig styrki til minni þjóðþrifamála á landsbyggðinni. Ég veit ekki hvort það tíðkast enn þá en það var til fjármagn til að styrkja málefni sem sneru að byggðamálum og þóttu horfa til framfara. Síðan hafði Byggðastofnun líka fjármagn, hún á eignir í hlutabréfum og veitti hlutafjárframlög til atvinnufyrirtækja sem skiptu miklu máli í byggðalegu tilliti. Það eignasafn sem Byggðastofnun á er upp á einhverja milljarða. Það væri áhugavert að heyra hvort þetta hefur komið til raunverulegrar umræðu, hvort það er einhver raunveruleg vinna í gangi hvað þetta varðar eða hvort menn eru bara að velta þessu fyrir sér úr ræðustólnum.