141. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2012.

útgáfa og meðferð rafeyris.

216. mál
[15:56]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi þessu um útgáfu og meðferð rafeyris sem er á þskj. 224, 216. mál.

Frumvarpið var, eins og nokkur fleiri, lagt fram á síðasta þingi en ekki náðist einu sinni að mæla fyrir því sökum tímapressu í störfum þingsins við þinglok. Málið var þó engu að síður kynnt í efnahags- og viðskiptanefnd og hún er málinu kunnug. Er það nú lagt fram öðru sinni með smávægilegum breytingum sem raktar eru sérstaklega í almennum athugasemdum.

Í frumvarpi þessu, sem unnið var af nefnd sem efnahags- og viðskiptaráðherra skipaði í maí 2011, er lögð til innleiðing á tilskipun 2009/110/EB um stofnun og rekstur rafeyrisfyrirtækja og varfærniseftirlit með þeim, er breytir tilskipunum 2005/60/EB og 2006/48/EB og nemur úr gildi eldri tilskipun sem er nr. 2000/46/EB um sama efni. Hafa þá allir þær tilskipanir á hreinu sem hér eru undir.

Tilskipunin sú sem hér er verið að innleiða er hluti af heildarendurskoðun Evrópusambandsins á reglum sínum á sviði rafrænnar greiðslumiðlunar. Eldri tilskipun þótti hamla þróun raunverulegs innri markaðar á Evrópska efnahagssvæðinu fyrir viðskipti með rafeyri og var því ákveðið að endurskoða hana með það markmið að afnema aðgangshindranir að rafeyrismarkaði og stuðla að bættu samræmdu regluverki um útgáfu og meðferð rafeyris. Í nefndinni áttu sæti fulltrúar allra helstu hagsmunaaðila auk sérfræðinga úr ráðuneytinu.

Helstu atriði frumvarpsins eru eftirfarandi:

Í fyrsta lagi: Rafeyrisfyrirtæki, sem eru ein tegund fjármálafyrirtækja, samkvæmt lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Útgáfa og umsýsla rafeyris, sem er starfsleyfisskyld starfsemi samkvæmt gildandi lögum og er þar af leiðandi einungis heimil fjármálafyrirtækjum á Íslandi. Ekkert slíkt fyrirtæki mun hafa verið starfandi á Íslandi frá setningu þessara laga, nr. 161/2002. Með frumvarpi þessu er lagt til að rafeyrisfyrirtæki verði sérstök tegund fjármálastofnana en ekki ein tegund fjármálafyrirtækja. Ákvæði löggjafar um rafeyri verði þá fært úr nefndum lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, í ný sérlög sem gildi um útgáfu og meðferð rafeyris.

Í öðru lagi er hugtakið rafeyrir skilgreint og þá með eftirfarandi þætti í þessu frumvarpi eins og þar segir, með leyfi forseta:

„Peningaleg verðmæti, í formi kröfu á útgefanda sem er geymd í rafrænum miðli, þar með talið á segulformi, gefin út í skiptum fyrir fjármuni, í þeim tilgangi að framkvæma greiðslu í skilningi laga um greiðsluþjónustu og samþykkt er sem slík af öðrum aðilum en útgefandanum sjálfum.“

Áhersla skal jafnframt lögð á að það er grundvallaratriði í skilgreiningu hugtaksins rafeyris að hann er fyrir fram greiddur. Þannig má sem dæmi nefna að greiðslukort eru ýmist fyrir fram greidd eða skuldir vegna notkunar þeirra gerðar upp eftir á. Hið síðarnefnda hefur verið algengara fyrirkomulag á Íslandi en ljóst má vera að einungis fyrir fram greiddu greiðslukortin teljast rafeyrir. Eins verður að gera greinarmun á innlánum, sem fjármálafyrirtæki hafa ein heimildir til móttöku á frá almenningi, og rafeyri. Lagt er til að ákvæði laganna eigi ekki við um peningaleg verðmæti sem geymd eru á miðlum sem aðeins er unnt að nota til kaupa á vörum og þjónustu á athafnasvæði útgefanda eða samkvæmt viðskiptasamningi við útgefanda, þ.e. innan afmarkaðs þjónustukerfis eða fyrir takmarkað svið vara og þjónustu, sem sagt innan lokaðs kerfis.

Sem dæmi um peningaleg verðmæti sem falla mundu undir þessa undanþágu má nefna ýmiss konar fyrir fram greidd kort, svo sem bensínkort og gjafakort sem aðeins er hægt að nota innan afmarkaðs þjónustukerfis tiltekins þjónustuveitenda eða fyrir takmarkað svið vara og þjónustu, svo fremi að sú fjárhæð sem geymd er á miðlinum á hverjum tíma fari ekki yfir 100.000 kr. Fyrir fram greidd inneignarkort fyrir mat hjá vinnuveitanda sem hefur margar starfsstöðvar og nokkur mötuneyti eru einnig dæmi um peningaleg verðmæti sem falla mundu undir þessa undanþágu.

Í frumvarpi þessu er lagt til að gengið verði lengra en texti tilskipunarinnar gerir ráð fyrir við skilgreiningu á lokuðu kerfi og áður greindu 100.000 kr. fjárhæðarhámarki bætt við ákvæðið. Það er sem sagt ekki skylt samkvæmt tilskipuninni. Fyrirsjáanlegt er að mun erfiðara verður fyrir eftirlitsaðila að leggja mat á hvar mörk lokaðs kerfis liggja ef slíkra viðmiða nýtur ekki við. Peningaþvætti með notkun rafeyris er býsna alvarlegt vandamál víða erlendis og ein af ástæðunum fyrir því að ýmis aðildarríki hafa tekið til skoðunar hvort nauðsynlegt sé að þrengja skilgreiningu sína á lokuðum kerfum er peningaþvætti eða möguleg hætta á því. Ef mögulegt er að geyma hærri fjárhæð, ég tala nú ekki um mun hærri fjárhæðir en 100.000 kr., á hlutaðeigandi miðli á hverjum tíma teljast þeir fjármunir nú rafeyrir samkvæmt gildissviði þessa frumvarps og eru því innan laganna. Þannig á að vera sett undir þann leka.

Í frumvarpinu er að finna efnisreglur um útgáfu og innlausn rafeyris. Meðal annars er kveðið á um að rafeyrir skuli gefinn út á nafnverði þegar útgefandi hans veitir fjármunum viðtöku og að gjaldtaka vegna innlausnar rafeyris sé aðeins heimil ef hún á stoð í samningi aðila. Hún skal vera hófleg og endurspegla raunkostnað útgefanda vegna innlausnarinnar.

Lagt er til að útgáfa rafeyris verði þeim einum heimil hér á landi er teljast til útgefenda rafeyris í skilningi þessa frumvarps, enda hafi þeir tilskilin leyfi íslenskra stjórnvalda eða stjórnvalda í öðru aðildarríki, þ.e. rafeyrisfyrirtæki í skilningi frumvarpsins, fjármálafyrirtækjum með starfsleyfi til móttöku innlána eða annarra endurgreiðanlegra fjármuna frá almenningi og veitingar útlána fyrir eigin reikning, auk Seðlabanka Evrópu og seðlabanka ríkja á EES-svæðinu þegar þeir eru ekki í hlutverki stjórnvalds peningamála og stjórnvalda þegar þau starfa á eigin vegum sem opinbert yfirvald.

Þá er kveðið á um að rafeyrisfyrirtæki skuli starfa sem lögaðili, ýmist með fullt starfsleyfi eða takmarkað starfsleyfi. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að rafeyrisfyrirtæki með takmarkað starfsleyfi hafi takmarkaðar starfsheimildir en verði eigi að síður starfsleyfis- og eftirlitsskylt hjá Fjármálaeftirlitinu líkt og rafeyrisfyrirtæki með fullt starfsleyfi.

Þetta voru meginatriði frumvarpsins, virðulegur forseti, sem á að vera þingmönnum kunnugt frá fyrri þingum eða að minnsta kosti síðasta þingi. Ég legg til að því verði vísað að lokinni umræðu til hv. efnahags- og viðskiptanefndar.