141. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2012.

neytendalán.

220. mál
[16:21]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni, það er löngu tímabært að setja þessari starfsemi skorður og eru eiginlega vonbrigði hvað það hefur tekið langan tíma. Það verður að vísu að horfa aðeins til þess að tilraunir hafa verið gerðar til þess af hálfu framkvæmdarvaldsins að leggja fyrir þingið aðgerðir í þeim efnum. Það má deila um hvort þær gengu nógu langt á sínum tíma en hér er alla vega komin tillaga um það sem þingið hefur þá til úrvinnslu og ég vona svo sannarlega að í þessu tilviki náum við alla leið í mark. Ég vil láta það álit mitt í ljós, án þess að ég ætli nú að fara að hlutast til um starfsemi efnahags- og viðskiptanefndar, að í þessu tilviki mundi ég fagna því ákaflega að það næði afgreiðslu fyrir jól.

Ef ég man rétt, og nú tek ég fram að ég hef ekki þau gögn við höndina, fundum við eitt annað dæmi um 50% hlutfallstölu árlegs kostnaðar og völdum að fylgja því en nota ekki 60% eða þaðan af hærri viðmiðanir eins og er alsiða í löndunum í kringum okkur. Ég nefndi þar dæmi frá Kanada og víðar að. Ég held því að ég megi fullyrða að við veljum hér strangasta fordæmið sem fyrir liggur í þessum efnum. Af hverju? Ég veit að mörgum finnst það hátt. Menn spyrja: Eru ekki dráttarvextir alveg nóg? En þá er rétt að hafa í huga að hér er verið að reyna að ná utan um lánskjör á lánum, lágum fjárhæðum til afar skamms tíma og aðferðin við hina svokölluðu árlegu hlutfallstölu kostnaðar er að taka yfir allan kostnaðinn þannig að ekki sé hægt að bjóða upp á lága vexti og mjög há gjöld.

Ég er ekki útlærður í þessum fræðum en ég hef baksað dálítið við að reyna að skilja aðferðafræðina um árlega hlutfallstölu kostnaðar og ég held að það megi reyna að orða það þannig á íslensku að þetta sé allur kostnaðurinn, vextir og lántökugjöld eða kostnaður (Forseti hringir.) umreiknað í vexti á ársgrundvelli, þá fáum við þetta út.