141. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2012.

neytendalán.

220. mál
[16:23]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir frumkvæði hans í málinu. Það er rétt sem hann bendir á að þegar málið kom fram hér fyrr voru ekki róttækar tillögur af þessu tagi varðandi smálánastarfsemi og er frumkvæði hans í því efni þess vegna þakkarvert. 50% er jú mikið en við höfum séð dæmi um 1000% eða 2000%.

Mér finnst líka sérstök ástæða til þess að skoða með hvaða hætti það getur gerst að lánafyrirtæki af þessu tagi geti farið inn á launareikninga fólks og sótt kröfur sínar þangað. Það er eitthvað sem opinberir innheimtumenn sekta hafa ekki á færi sínu þannig að við hljótum að taka það sérstaklega til skoðunar í efnahags- og viðskiptanefnd hvernig það má vera.

Ég treysti því að góð samstaða verði um málið og veit að það verður kappkostað af hálfu nefndarmanna í efnahags- og viðskiptanefnd að ljúka því, líka vegna þess að í því felast ýmsar aðrar réttarbætur. Ég fagna þeim ákvæðum sem hér eru um upplýsingagjöf í tengslum við fasteignaveðlán. Það er annar lánaflokkur sem ekki hefði verið skylt að hafa undir þessum lögum, þ.e. lán yfir 10–12 millj. kr.; 75 þús. evrum. Ég held að við höfum upplýst ungt fólk ranglega um kostnaðinn af verðtryggðum lánum. Það er rangt að sýna ungu fólki útreikninga á greiðslubyrði sem miða við aðeins 3% verðbólgu á hverju ári þegar við höfum sjálf reynslu af allt öðru, af hærri verðbólgu og megum vænta þess að hún geti verið ívið meiri en verðbólgumarkmiðið sjálft.

Ég hef spurt mig hvort við, stjórnvöld, höfum ekki beinlínis gert okkur sek um að nánast blekkja ungt fólk þegar það hefur tekið ákvarðanir (Forseti hringir.) um lánamál sín með þeirri skipan sem nú er. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann geti tekið undir það og hvort það hafi hugsanlega verið brot á lögunum sem í gildi eru frá því að (Forseti hringir.) fasteignaveðlánin féllu undir neytendalánin. Um leið fagna ég þeim úrbótum (Forseti hringir.) sem ráðherrann leggur til í þessu efni.