141. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2012.

neytendalán.

220. mál
[16:28]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er mikilvægt málefni sem hér er á ferðinni, lagaumgjörðin um neytendalánin. Ég held að fáum blandist hugur um að í því efni þurfum við Íslendingar að taka okkur nokkurt tak í að styrkja lög og rétt fólksins í landinu, neytendanna, gagnvart stórum og öflugum fjármálastofnunum í þeim viðskiptum þar sem oft og einatt er auðvitað nokkuð ójafn leikur. Annars vegar stofnanir með mörg hundruð manna starfslið færustu sérfræðinga, lögfræðinga, hagfræðinga, viðskiptafræðinga og aðra þá sérþekkingu sem þarf til að átta sig á hinu flókna sviði fjármálaviðskiptanna og hins vegar venjulegt vinnandi fólk sem enga sérþekkingu hefur á sviðinu og takmarkaða aðstöðu til að setja sig inn í ýmislegt í því smáa letri sem verið getur í samningum.

Hér er líka ýmislegt sem er séríslenskt sem við þurfum að huga að. Þar er kannski sérstaklega að nefna það sem við ræddum hér síðast, ég og hæstv. ráðherra, þ.e. verðtryggð lánakjör, vegna þess að hvort svo sem menn eru hlynntir verðtryggingu eða andvígir verðtryggingu þá hygg ég að allir menn geti verið á einu máli um að það er býsna flókið fyrirbæri fyrir óstærðfræðimenntað fólk, verðtrygging lána, með hvaða hætti hún virkar.

Þau dæmi, sem meðal annars hafa verið í umræðunni nú nýlega um að verðtryggt lán geti verið selt á yfirverði vegna verðtryggingarinnar og þar með haft annað markaðsvirði en lánsfjárhæðin sjálf endurspeglar, held ég að leiði það býsna berlega í ljós hversu flókið þetta fyrirkomulag er að mörgu leyti, kannski það fyrirkomulag sem við verðum að búa við enn um sinn en þá er gríðarlega mikilvægt að neytandinn sé upplýstur eins vel og hægt er undir hvað hann er að undirgangast.

Við þekkjum jú öll fjölmörg dæmi um að fólk undrast það og hefur ekki átt þess von að lánin vaxi upp úr öllu valdi sjálfvirkt eða það greiði af lánunum árum og áratugum saman og höfuðstóllinn hækki bara og hækki eftir því sem það greiðir meira. Það bendir auðvitað til þess að það hafi ekki fengið fullnægjandi upplýsingar um þetta fyrirkomulag áður en það gekkst undir skuldbindingarnar.

Nú hefur fasteignaveðlánaflokkurinn, þ.e. lán yfir 75 þús. evrum, um 10–20 millj. ísl. kr., fallið undir lög um neytendalán á Íslandi um nokkurra ára skeið. Ég tel ástæðu til að efast um að við höfum í framkvæmdinni farið að gildandi lögum í því efni eftir að verðtryggð fasteignaveðlán féllu undir neytendalánalöggjöfina og evrópsku tilskipanirnar vegna þess að í neytendalánalöggjöfinni er rík skylda á hinum sterkari aðila í samskiptunum að veita góðar og ítarlegar upplýsingar með grandvörum hætti.

Ég held að setja megi fyllilega við það spurningarmerki hvort það sé rétt, eðlileg og hlutlæg upplýsingamiðlun af hálfu lánastofnana að sýna til að mynda ungu fólki, sem litla reynslu hefur af fjármálum og kannski enga menntun í því, útreikninga á afborgunarbyrði sem miðar við 3% verðbólgu næstu 25 árin árlega.

Ég held að þeir hagfræðingar og lögfræðingar, stjórnmálamenn og stjórnendur sem hafa ákveðið að láta leggja slíka útreikninga fyrir ungt fólk sem ekki hefur sérþekkingu á þessu sviði þurfi auðvitað að spyrja sig hvort það sé í raun og veru þannig að stjórnvöld hafi verið að sýna því fólki þá spá um framtíðina sem sérfræðingarnir og stjórnmálaforustan sjálf trúi á. Og hvers vegna fólki hafi ekki líka verið sýnd fráviksdæmin hvað gerist ef verðbólgan verður 10%? Hvað gerist ef hún verður 20% o.s.frv.?

Þess vegna er það fagnaðarefni að á þessu er talsvert tekið í því máli sem hér liggur fyrir af hálfu hæstv. ráðherra og lögð skylda á herðar mönnum um ítarlegri upplýsingar meðal annars með tilliti til sögulegrar verðbólgu og það eru líka framfarir í málinu frá því sem var í því frumvarpi sem við fengum til umfjöllunar á síðasta þingi.

Hitt er svo ekki séríslenskt það sem við ræddum hér áðan, þ.e. smálánafyrirtækin. Ég þekki það ákaflega vel af vettvangi Norðurlandasamstarfsins, Norðurlandaráðs og samstarfs þingmannanna þar, að smálánafyrirtækin hafa náttúrlega um alla okkar heimsálfu og svo sem líka um Norður-Ameríku verið mönnum þyrnir í augum hvernig þau hafa gengið fram.

Það hefur tekið mörg ríki talsverðan tíma að átta sig á því með hvaða hætti hægt væri að sníða þeim fyrirtækjum stakk og setja þeim reglur þannig að neytendur væru fyllilega varðir. Það kom fram í máli hæstv. ráðherra að frændur okkar bæði í Danmörku og Finnlandi eru að huga að sams konar úrræðum og ráðherrann er hér að leggja til, að setja einfaldlega bann við þeirri algjörlega óhóflegu gjaldtöku sem verið hefur upp á hundruð prósenta, ég hygg raunar að tilfæra megi dæmi upp á þúsund prósent og meira í árlegum kostnaði fyrir fólk sem þessi lán tekur. Ég ítreka þá afstöðu að það er ákaflega ánægjulegt að loksins séu komnar fram tillögur sem sannarlega munu laga mikið til í því efni, þó að það sé sjálfsagt og eðlilegt að skoða hvort lengra megi ganga í þessu eða ekki, og hver er hlutur kostnaðarins í þessari starfsemi og hver er hlutur vaxtanna sjálfra.

Ég vona og veit að í hv. efnahags- og viðskiptanefnd er ríkur vilji til þess að bæta stöðu neytenda á fjármálamarkaði og tel raunar líka að í kjölfar þingsályktunartillögu sem hér var samþykkt um að samræma og bæta skipulag neytendaverndar á fjármálamarkaði þá eigum við þarna talsvert verk fyrir höndum. En ég vona að þessum þætti þess verks, þ.e. að lögfesta það frumvarp sem hér hefur verið lagt fram með eðlilegum breytingum sem verða við þinglega meðferð, megi takast að ljúka fljótt og vel og vonandi vel fyrir jól.

Við höfum þegar sett málið á dagskrá nefndarfundar í fyrramálið, fáum þar á því kynningu eins og þar stendur og sendum það síðan út til umsagnar. Ég vona að tillögur úr nefndarstarfi á vegum ríkisstjórnarinnar um skipulag neytendaverndar á fjármálamarkaði líti líka dagsins ljós á þessum vetri vegna þess að ljóst er að ýmislegt brást hér í eftirliti, m.a. með erlendu lánveitingunum, og full ástæða er til að skoða það hvort við getum ekki eflt einn aðila í okkar litla samfélagi sem beri ábyrgð á neytendavernd á fjármálamarkaði og tryggja að það séu ekki bara lögin sem leitist við að jafna leikinn þegar annars vegar eiga í hlut stórar og öflugar fjármálastofnanir og hins vegar einstakir neytendur, heldur sé líka ein stofnun sem beri ábyrgð á því að verja þá neytendur og hjálpa þeim við að sækja rétt sinn og að allir viti, bæði neytendurnir og fjármálakerfið sjálft, hvaða stofnun það er sem ber þessa ábyrgð og geti leitað þangað.