141. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2012.

sviðslistalög.

199. mál
[17:53]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, þarna er fyrst og fremst um lögformlegt atriði að ræða, þ.e. hvort starfsemi áhugaleikfélaga heyri undir lög með þeim hætti sem hún hefur gert. Það er hins vegar skoðun mín að hið opinbera eigiað styðja við starfsemi áhugaleikfélaga. Spurningin er fremur, og það er nokkuð sem ég held að sé mikilvægt að hv. allsherjar- og menntamálanefnd ræði: Með hvaða hætti á það að gerast? Á það að vera með föstum lið í fjárlögum eins og verið hefur án þess að það sé endilega lögbundið? Ég minni á að menningarsamningarnir eru ekki lögbundnir þó að þeir séu auðvitað mjög mikilvæg stoð við menningarlíf um land allt. Viljum við að fjárveitingar fari í gegnum téða menningarsamninga?

Ef hv. allsherjarnefnd kemst að þeirri niðurstöðu að rétt sé að geta starfsemi áhugaleikfélaga með einhverjum hætti í þessum lagabálki þarf líka að vera ljóst nákvæmlega hvernig við hugsum fjárframlög til þess málaflokks. Þarna voru færð fyrir því sannfærandi rök að lögformlega séð ætti þetta ekki endilega heima sem sérstök stoð í þessum lögum sem fjallar fyrst og fremst um atvinnustarfsemi. Ég tel rétt að nefndin fari yfir þetta því að ég held að við hv. þingmenn séum öll sammála um að rétt sé að styðja við starfsemi áhugaleikfélaga.