141. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2012.

menningarstefna.

196. mál
[18:21]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi máls míns hrósa hæstv. ráðherra fyrir framlagningu þessarar þingsályktunartillögu. Það er þarft verk að leggja fram menningarstefnu. Ég held að umræða um menningarstefnu sé nauðsynleg og jafnvel megi halda því fram að nokkuð skorti á í samfélagi okkar að við ræðum menningarstefnu og kannski sérstaklega á hinu pólitíska sviði.

Mikilvægi menningarstarfsemi í landinu og samhengi menningarstarfseminnar við þjóðlífið allt hlýtur að vera mál sem við sem fáumst við opinber málefni þurfum að ræða og móta okkur afstöðu til.

Ég vil líka segja að það er ekkert einfalt mál að setja fram slíka stefnu og við því að búast í sjálfu sér að menn hafi ólíkar skoðanir á því hvað eigi að vera í slíkri stefnu og hvað ekki.

Ég ætla kannski ekki í þessari ræðu að fara í smáatriðum út í einstök efnisatriði. Ég vil þó gera að umræðuefni leiðarljósin sem hér eru nefnd. Ég vil nefna sérstaklega liði sem snúa að samhengi listastarfseminnar og atvinnu- og efnahagslífsins. Þar skiptir máli, virðulegi forseti, að vel sé til vandað vegna þess að fyrir atvinnulífið er gríðarlega mikilvægt að menningarstarfsemin í landinu sé öflug og listalífið öflugt fyrir margra hluta sakir. Í fyrsta lagi vegna þess að það eru einfaldlega efnisleg verðmæti fólgin í öflugu menningarlífi. Til dæmis er mikilvægt fyrir ferðaiðnaðinn að hér í landinu sé öflugt menningarlíf sem gestir okkar geti notið. Það er ekki síður mikilvægt fyrir hinar skapandi greinar að hafa aðgang að skapandi fólki, skapandi einstaklingum sem sjá hlutina kannski með öðrum augum eða koma með ný sjónarhorn á þekkt vandamál, hvort sem um er að ræða tölvuleikjaiðnaðinn, hugverkaþróun eða í raun alla atvinnustarfsemi þar sem reynir svo mjög á hinn skapandi hug; að sjá nýjar hliðar á vandamálunum, finna nýjar lausnir. Það er þetta samhengi sem skiptir máli.

En það er líka önnur hlið sem kemur auðvitað upp í framhaldi af þessari umræðu sem mig langar að gera að umtalsefni og ég velti henni upp til athugunar fyrir þá nefnd sem tekur við málinu. Spurningin sem hlýtur að brenna á okkur öllum sem förum með opinbera fjármuni er þessi: Hvers vegna erum við tilbúin til að setja skattpeninga til þess að styðja við listastarfsemi? Hvers vegna erum við tilbúin til þess? Hver eru rökin fyrir því? Í þessari þingsályktunartillögu er lagt til og bent á að ríkið eigi að styðja atvinnulistamenn og ýmiss konar liststarfsemi. Mér finnst nauðsynlegt þegar við ræðum þetta að við svörum þessari spurningu. Hún er grundvallarspurning.

Í mínum huga er þar tvennt sem skiptir máli. Í fyrsta lagi auðvitað listarinnar vegna. Listin í sjálfu sér er mikilvæg og þess vegna er skynsamlegt og nauðsynlegt að styðja við listir. Listin og þá í víðara samhengi menningarstarfsemin er ákveðinn grundvöllur og samhengi í þjóðlífinu eins og bent hefur verið á og þess vegna er nauðsynlegt að styðja við hana og styrkja.

Hitt er eftirfarandi: Við viljum hafa samfélag okkar opið og ekki of reglusett, þ.e. við viljum ekki reyna að stýra öllu í mannlegu samfélagi, hegðun manna. Við viljum skilja eftir sem mest svigrúm fyrir hvern einstakling. Til að geta haft samfélagið þannig skiptir máli í mínum huga að við búum í siðuðu samfélagi. Hvað er átt við með því? Hver og einn getur lagt sinn skilning í það hugtak en minn skilningur er sá að siðað samfélag sé samfélag þar sem við gerum okkur grein fyrir afleiðingum orða okkar og gerða á líðan annarra, það sé grundvöllur siðaðs samfélags. Ef við veltum því aðeins fyrir okkur hvað list er má segja að listamaðurinn, hvort sem það er skáld, myndlistarmaður, tónlistarmaður eða hvaða list hann fæst við, miðlar einhverri hugmynd eða tilfinningu í gegnum listaverkið til áhorfenda, til þeirra sem hlusta, sem lesa. Hvað er það annað en einmitt það sem siðað samfélag gengur út á, að setja sig í spor annarra og skilja tilfinningar annarra? Í þessu felst einmitt hið mikla mikilvægi listarinnar þegar kemur að samhengi samfélagsins, bandinu sem hnýtir okkur saman. Þess vegna er ég þeirrar skoðunar að það sé mikilvægt og skipti máli að við styðjum við liststarfsemina.

Auðvitað eru líka rök gegn slíkri ákvörðun. Ein hættan sem uppi er er einmitt sú að eftir því sem við miðstýrum listinni meira því meiri hætta er á að við geldum hana. Listin er ekki eitthvað sem við stýrum og alls ekki að ofan. Það er hið erfiða verkefni; hvernig við komum peningum skattborgaranna, þeim sem við ætlum að verja í þennan málaflokk, til listamannanna án þess að við séum að stýra þessu um of.

Virðulegi forseti. Í þessari þingsályktunartillögu er á nokkrum stöðum sagt að hafa eigi að leiðarljósi fagmennsku, fjölbreytni, gæði o.s.frv. Þetta skiptir auðvitað máli en vandinn er sá að það er auðvelt að segja þetta og setja fram þessi hugtök en erfiðara að skilgreina þau nánar og vinna síðan eftir þeim. Við hvað er átt nákvæmlega þegar sagt er til dæmis eins og hér er gert, lifandi menningarstofnanir? Ég vil leyfa mér að varpa því til ráðherra og svo kannski nefndarinnar hvort ekki megi skoða eitthvert annað hugtak en lifandi menningarstofnanir. Ég veit ekki hvað það þýðir nákvæmlega. Og þegar kemur að markmiðunum er sagt að menningarstofnanir á Íslandi leggi áherslu á fagmennsku, fjölbreytni og gæði. Maður gæti sagt að það sé varla hægt að aðskilja þetta, það er varla hægt að vera með gæði en ekki fagmennsku og fjölbreytni, en látum það vera. En ég bendi á að hugtak eins og fagmennska er mjög teygjanlegt hugtak.

Ég sé þetta á nokkrum stöðum annars staðar í textanum og ég verð eiginlega að gera í það minnsta ábendingu um að það mætti lesa þennan texta yfir í nefndarvinnunni og gera hann knappari og hnitmiðaðri. Eftir fyrsta yfirlestur rak ég mig á nokkra staði þar sem að mínu mati væri sjálfsagt að þétta textann aðeins og hafa hugtökin eilítið skýrari. En það er auðvitað erfitt að gera það, virðulegi forseti, svo vel fari, ég átta mig á því af því að þetta er kannski spurning um stíl og áferð og verið að fjalla um mál sem er vítt og opið. Ég held að til auðvelda okkur umræðu um þetta á síðari stigum málsins mætti skoða einhverja slíka vinnu af hálfu nefndarinnar, virðulegi forseti.