141. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2012.

menningarstefna.

196. mál
[18:49]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni, það er full ástæða til að skoða þetta. Ég nefni það hér að margar þessara stofnana hafa verið að vinna gott starf. Þjóðleikhúsið var nefnt og ég nefni þjóðleiksverkefnið sem hefur farið á milli landshluta þar sem Þjóðleikhúsið hefur verið að vinna með ungu fólki í viðkomandi fjórðungi. Leikskáld hafa verið fengin til að semja ný íslensk verk fyrir ungt fólk sem setur þau svo upp og er feikilega vel heppnað. Það fór einmitt fyrst af stað á Austurlandi og hefur svo breiðst út og er núna að fara í gang á Suðurlandi. Ég lít því svo á að menningarstofnanirnar hafi mikla sérþekkingu.

Þjóðminjasafnið er önnur stofnun sem vinnur um land allt með húsasafn sitt og er í mjög góðum samskiptum við söfn um landið. Ég held að í þeim efnum getum við, sem kannski er hlutverk stjórnvalda, fundið þá sem eru að gera góða hluti, eins og það heitir á ensku „best practices“, þ.e. taka fordæmi frá stofnunum sem hafa verið að vinna að áhugaverðum verkefnum sem hafa skilað sér út um land og kynna þau einmitt fyrir öðrum. Ég held því að þarna geti stjórnvöld beitt sér með því að miðla þekkingu á milli stofnana sem stundum fer ekki á milli, kannski stofnana sem eru í safnageiranum annars vegar og hins vegar menningarstofnana sem eru í sviðslistum eða einhverju slíku. Ég held að þarna séu mörg tækifæri til að gera betur.