141. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2012.

lagning heilsársvegar í Árneshrepp.

191. mál
[19:15]
Horfa

Flm. (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um lagningu heilsársvegar í Árneshrepp á Ströndum. Flutningsmenn auk mín eru þeir hv. þingmenn Atli Gíslason, Ásmundur Einar Daðason, Einar Kristinn Guðfinnsson, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Lilja Mósesdóttir og Ólína Þorvarðardóttir.

Tillagan hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að lagður skuli heilsársvegur norður í Árneshrepp, þ.e. eftir Strandavegi (643) í Norðurfjörð. Meginframkvæmdir eigi sér stað á næstu fjórum árum og verði að fullu lokið á tímabili núgildandi samgönguáætlana. Á fjárlögum næstu ára verði tryggt nægilegt fjármagn til þess að markmið um heilsársveg í Árneshrepp náist innan þeirra tímamarka sem tillagan gerir ráð fyrir.“

Í greinargerð með tillögunni stendur meðal annars, frú forseti:

Með þessari tillögu er ætlunin að fylgja eftir ályktunum Alþingis um aðgerðir til að standa vörð um byggð í Árneshreppi á Ströndum, treysta hana og styrkja og gefa henni aukin tækifæri til sóknar.

Tillagan var lögð fram á 140. löggjafarþingi en varð þá ekki afgreidd og er nú endurflutt. Rétt er að vísa til þess að árið 2003 samþykkti Alþingi samhljóða þingsályktun um aðgerðir til verndunar búsetu og menningarlandslags í Árneshreppi, eins og þar stóð, en 1. flutningsmaður þeirrar tillögu var hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson. Í henni stóð:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að setja á stofn nefnd er vinni að gerð tillagna um aðgerðir til verndunar búsetu og menningarlandslags í Árneshreppi í Strandasýslu … og leita eftir víðtæku samstarfi heimamanna og félagasamtaka í þeim tilgangi.“

Í nefndaráliti umhverfisnefndar var eftirfarandi rökstuðning að finna fyrir samþykkt tillögunnar:

„Nefndin telur að stuðla eigi að verndun þess menningararfs sem felst í búsetu og búsetuminjum í jaðarbyggðum Íslands. Við umfjöllun málsins var bent á að jaðarbyggðir landsins endurspegli mjög vel tengsl þjóðarinnar við landið í aldanna rás og með hvaða hætti þjóðin nýtti sér gæði þess sér til lífsviðurværis. Því væru þær afar mikilvægur þáttur í menningarsögu þjóðarinnar.

Árneshreppur á Ströndum er á margan hátt einstök jaðarbyggð, landfræðilega afmarkaður, nokkuð þéttbýll, auk þess sem þar er að finna fjölbreyttar minjar um búsetu, atvinnuhætti og sögu þjóðarinnar.“

Þetta sagði umhverfisnefnd þegar hún mælti með samþykkt tillögunnar.

Með samþykkt Alþingis á þessari tillögu sýndi Alþingi í raun stefnumarkandi vilja sinn og jafnframt voru skapaðar væntingar hjá íbúunum um að hugur fylgdi máli af hálfu Alþingis. Í framhaldi af samþykkt þessarar tillögu var meðal annars veitt nokkurt fé til stuðnings uppbyggingu ferðaþjónustu, viðgerð húsa og uppbyggingu safna í hreppnum. Jafnframt var unnið að því að vegurinn norður í Árneshrepp færi inn á samgönguáætlun og yrði unninn í áföngum. Unnið var að uppbyggingu vegarins frá Bjarnarfirði og norður Bala sem var mikil samgöngubót. Að öðru leyti hefur áætlunin ekki gengið eftir sem skyldi og áframhaldandi vegabótum slegið á frest.

Gott er að minnast fagurra orða í þessu sambandi en á 130. löggjafarþingi sagði þáverandi forsætisráðherra, Davíð Oddsson:

„Ég segi fyrir mitt leyti að ég er sammála því mati Alþingis sem er mjög sértækt að gera sérstaka ályktun um þetta sveitarfélag eitt og sér. Um það var samstaða hér. Ég tel að þetta sveitarfélag, mannlífið þar, forsagan öll, … hafi mikla og sérstaka þýðingu og því sé ekki bara verjandi heldur æskilegt að við sameinumst um það og stuðlum öll að því að það megi vernda það mannlíf og samfélag sem þarna er um að ræða. Ég vil fyrir mitt leyti … lýsa því yfir að ég mun styðja við málið eins og ég get úr forsætisráðuneytinu … meðan ég sit þar.“

Í seinni ræðu sinni þegar við ræddum fyrirspurn mína sagði hann:

„Ég tel að sú samstaða sem náðist um þingsályktunartillöguna hafi verið afar sérstæð í þinginu og mikilvæg þannig að ríkisvaldið í hvaða mynd sem það er statt hefur hvorki efni né ástæðu til að draga lappirnar hvað þetta mál varðar.“

Þetta sagði þáverandi forsætisráðherra, Davíð Oddsson, en vetri síðar, á 131. löggjafarþingi, tók þáverandi forsætisráðherra, Halldór Ásgrímsson, í sama streng og lagði áherslu á samgöngubætur á umræddu svæði. Þar sagði þáverandi forsætisráðherra Halldór Ásgrímsson orðrétt, með leyfi forseta:

„Ég vil fyrir mitt leyti, miðað við þá þekkingu sem ég hef á aðstæðum í Árneshreppi, segja að ég tel uppbyggingu vegakerfisins mikilvægasta af öllu. Það er víða mjög slæmt. Ég veit ekki til þess að það hafi verið sérstakt forgangsverkefni í Norðvesturkjördæmi. Ég tel að þar þurfi að verða breyting á. Ég hef farið þarna um nokkrum sinnum og tel að að hluta til séu vegarkaflar á þessu svæði með eindæmum, miðað við það sem annars staðar gerist á byggðu bóli. Ég tel að þetta sé mjög mikilvægt, ekki bara út af byggðinni heldur líka út af aðgangi ferðamanna að þessu svæði. Þetta svæði er ein af mestu náttúruperlum þessa lands og jafnframt tel ég að ýmislegt sem varðar menningu og menntun á svæðinu, eins og fjarnám og annað slíkt, eigi að hafa forgang.“

Í umræðum um fyrirspurn af sama tilefni á 135. löggjafarþingi fór þáverandi forsætisráðherra, Geir Haarde, yfir þær aðgerðir sem ráðist hefði verið í til þess að fylgja eftir þingsályktun sem Alþingi hafði samþykkt einróma nokkrum árum áður, eins og ég gat um. Þá sagði þáverandi hæstv. forsætisráðherra, Geir Haarde, með leyfi forseta:

„Á undanförnum árum hefur verið unnið að uppbyggingu svokallaðs Strandavegar sem liggur frá botni Steingrímsfjarðar allt norður til Norðurfjarðar í Árneshreppi. Á næsta ári verður varið tæpum 100 millj. kr. til þeirra framkvæmda og verður þá uppbyggður vegur kominn norður fyrir Kaldbak. Á árunum 2009–2010 verður 60 millj. kr. varið til uppbyggingar vegar yfir Veiðileysuháls. Sú samgöngubót mun gagnast íbúum Árneshrepps verulega.“

Það fór hins vegar á annan veg því að við afgreiðslu fjárlaga ársins 2007 var samþykkt að veita 5 millj. kr. til Árneshrepps og lá þar meðal annars til grundvallar fyrrnefnd greinargerð nefndarinnar um aðgerðir til verndunar búsetu og menningarlandslags í Árneshreppi.

Frú forseti. Þannig hefur þetta gengið, það hafa verið höfð um þetta mjög fögur orð og afdráttarlaus en efndir síðan ekki verið í samræmi við væntingar.

Á 140. löggjafarþingi lögðu svo hv. þm. Ásmundur Einar Daðason o.fl. fram þingsályktunartillögu um snjómokstur í Árneshreppi þar sem lagt var til að tryggt yrði að Vegagerðin annaðist eða greiddi fyrir nauðsynlegan snjómokstur á vegi 643, Strandavegi, tvo daga í viku. Í rökstuðningi fyrir þeirri tillögu er vikið að því hvað slæmt ástand vega hafi neikvæð áhrif á byggðina í Árneshreppi sem sé landmikill hreppur en um leið fámennasta sveitarfélag á landinu. Aðeins einn vegur liggi í hreppinn og því sé erfitt fyrir íbúana sem eru rúmlega 50 að tölu að sækja sér grunnþjónustu á veturna, auk þess sem það geri til dæmis uppbyggingu menningartengdrar ferðaþjónustu og annarri starfsemi í hreppnum mun erfiðara fyrir ef snjómokstur er þar stopull.

Frú forseti. Það er því alveg ljóst að samgöngur bæði að sumri og vetri eru meginforsendur fyrir því að samfélag, atvinnulíf og byggð viðhaldist, þróist og dafni á þessu svæði. Fulltrúar flestallra flokka sem hafa verið við stjórnvölinn á Alþingi hafa lagt á það ríka áherslu.

Þess vegna er með þeirri tillögu sem hér er lögð fram lagt til að Alþingi taki þá pólitísku ákvörðun að á næstu fjórum árum verði lokið að mestu gerð heilsársvegar norður í Árneshrepp. Verkinu verði að fullu lokið á næstu átta árum eins og langtímaáætlun gerir ráð fyrir. Vegagerðin verði nú þegar beðin um að vinna framkvæmdaáætlun sem miði að því að svo verði. Lagt er til að vegurinn verði almennt einbreiður, þ.e. 4 metra breiður, með góðum útskotum til að halda kostnaði niðri, a.m.k. við lagningu vegarins í byrjun.

Jafnframt er lögð áhersla á að sveitarfélagið sé stutt til þess að hraða og ljúka skipulagi sem lýtur að þessari vegagerð. Sveitarfélagið hefur nú þegar samþykkt fyrir sitt leyti að veglínan liggi um Veiðileysuháls eins og nú er en ekki fyrir Kamb eins og einnig hefur verið nefnt. Í þessari tillögu er enn fremur lagt til að verkið verði látið njóta sérstöðu í heildargerð og fjármögnun samgönguáætlunar og rammi hennar rýmkaður fjárhagslega vegna þessa svo verkið nái fram að ganga á þessum tíma.

Frú forseti. Íbúar í Árneshreppi hafa sýnt mikinn dugnað og frumkvæði í að byggja upp stoðgreinar eins og ferðaþjónustu með hefðbundnum búskap og trilluútgerð. Talið er nú að að minnsta kosti 10 þús. manns hafi komið á svæðið árlega yfir sumartímann. Hins vegar er nú komið að þolmörkum áframhaldandi heilsársbúsetu og mikilvægt að Alþingi, fyrir hönd þjóðarinnar, komi nú að með myndarlegum og afdráttarlausum hætti og leggi sitt af mörkum til að tryggja byggð og heilsársbúsetu í Árneshreppi. Að öðrum kosti, ef þetta verður látið líða áfram án þess að ákvörðun verði tekin, er óvíst hversu lengi íbúarnir þola við.

Ég er þeirrar skoðunar að þetta sé svo brýnt mál að Alþingi geti vel, eins og áður hefur verið lýst, sameinast um að það verði framkvæmt. Ísland minnkar við hverja byggð sem leggst af að mínu viti og þessar útbyggðir eru einhvers konar útverðir íslenskrar menningar, íslensks atvinnulífs og íslenskrar byggðar og við þurfum einmitt að huga sérstaklega að því.

Þarna eru mikil náttúruverðmæti. Þarna eru mjög eftirsóttir ferðamannastaðir. Það er gott undirland fyrir ákveðið magn af búskap og þess vegna hefur þessi byggð sýnt að hún getur svo vel komist af og líka sótt fram ef hún bara fær að njóta jafnræðis við aðra íbúa landsins hvað varðar grunnþjónustu eins og samgöngur.

Frú forseti. Það liggja fyrir möguleikar á því að áfangaskipta þessari framkvæmd en meginmálið er að þessi vegur og samgöngur við Árneshrepp fáist viðurkenndar á vegáætlun sem heilsársvegur, það sé markmið að hann verði byggður upp og það á næstu árum þannig að íbúarnir viti að svo verði í sýnilegri, náinni framtíð. Þess vegna legg ég áherslu á það, frú forseti, að tillagan um heilsársveg í Árneshrepp sem verði að meginþorra byggður upp á næstu fjórum árum verði afgreidd sem fyrst frá Alþingi og síðan veitt það nauðsynlega fjármagn sem þarf til að gera hana að veruleika. Íbúar í Árneshreppi á Ströndum verðskulda svo sannarlega að Alþingi standi við þau fyrirheit sem það hefur ítrekað gefið um að standa við bak þeirra í byggð, búsetu og atvinnulífi norður í Árneshreppi.

Frú forseti. Ég legg svo til að að lokinni umræðu hér verði tillögunni vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar og jafnframt til stuðnings send hv. fjárlaganefnd til að fjármagnið verði veitt á komandi ári svo þetta megi ganga eftir.

Það er líka rétt að geta þess líka, frú forseti, að það hafðist við afgreiðslu samgönguáætlunar á síðasta þingi að vegurinn norður í Árneshrepp var settur inn á áætlun að hluta þannig að ég tel að við vinnum þetta skref fyrir skref, að það verði samþykkt að leggja heilsársveg í Árneshrepp og við það staðið með nauðsynlegum fjárveitingum. Þessi tillaga miðar einmitt að því að Alþingi standi við það.