141. löggjafarþing — 20. fundur,  17. okt. 2012.

störf þingsins.

[15:02]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Hv. allsherjar- og menntamálanefnd hefur að undanförnu fjallað um meðferð kynferðisbrotamála á Íslandi og er ljóst af þeirri umfjöllun að brýn þörf er á úrbótum í þeim málaflokki. Kynferðisbrotum á Íslandi hefur fjölgað verulega á undanförnum fimm árum en fjöldi sakfellinga hefur staðið í stað. Tíðni kynferðisbrota hér á landi er með því hæsta sem gerist á Norðurlöndunum.

Það er mikilvægt að fram komi að ánægja var meðal þeirra aðila sem við töluðum við á fundum okkar með vinnu starfsfólks lögreglu og saksóknara en ljóst er að þau embætti anna ekki þessum málum sem skyldi og kynferðisafbrotamálin mæta afgangi þegar önnur alvarleg ofbeldisbrot koma inn á borð lögreglunnar.

Kynferðisbrotadeild lögreglunnar og ríkissaksóknari hafa sett sér viðmið um að rannsókn og meðferð kynferðisbrotamála taki að jafnaði ekki lengri tíma en 1–2 mánuði en reyndin er sú að rannsókn slíkra mála tekur 12–24 mánuði. Ég tel að við getum ekki boðið þolendum kynferðisbrota upp á þennan langa málsmeðferðartíma og hann er í einhverjum tilvikum farinn að spilla málum og draga úr líkum á því að þau endi fyrir dómi.

Ég vil einnig draga fram þau áhrif sem klámvæðingin hefur á þennan málaflokk. Við áttum í morgun fund með Gail Dines, prófessor frá Bandaríkjunum, sem talaði á ráðstefnu innanríkisráðuneytisins í gær. Það sem stendur upp úr eftir þann fund er sú niðurstaða að klámefni á vefnum er orðið áhrifaríkasta form kynfræðslu í samfélagi okkar gagnvart börnum og ungmennum. Klámið verður sífellt grófara og líkist æ meir svæsnum pyndingum. Þeir aðilar sem hafa mest áhrif á kynferðislegt uppeldi og sjálfsmynd barna og ungmenna hér á landi og á Vesturlöndum eru framleiðendur klámefnis í Los Angeles í Bandaríkjunum. Ljóst er að klám er þegar farið að hafa áhrif á gerendur í kynferðisbrotamálum hér á landi, þar með talið ungmenni á aldrinum 12–18 ára.

Ég vona að allsherjar- og menntamálanefnd muni freista þess að ná þverpólitískri (Forseti hringir.) samstöðu um aðgerðir til að bregðast við þeirri stöðu til að stemma stigu við (Forseti hringir.) klámvæðingunni á sama tíma og við freistum þess að meðferð kynferðisbrotamála fái aukinn forgang í réttarkerfinu.