141. löggjafarþing — 20. fundur,  17. okt. 2012.

störf þingsins.

[15:17]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Ég óska eftir því að eiga orðastað við hv. þm Björn Val Gíslason, formann fjárlaganefndar. Fyrir þremur árum ákvað ríkisstjórnin án rökstuðnings að hætta fjárveitingum til refaveiða þrátt fyrir að sýnt hefði verið fram á að tekjur ríkissjóðs vegna virðisaukaskatts af hlutdeild sveitarfélaganna væru hærri en heildarútgjöld ríkisins vegna refaveiðanna.

Þegar fjárlög voru samþykkt það ár ákvað fjárlaganefnd hins vegar að breyta tillögu hæstv. umhverfisráðherra og setti inn fjármagn til refaveiða. Ári síðar, þ.e. fyrir tveimur árum, kom hæstv. umhverfisráðherra með sömu tillögu þess efnis að hætt yrði fjárveitingum til refaveiða. Fjárlaganefnd sem þá var ákvað að breyta því ekki.

Nú sjáum við að refastofninn hefur á síðustu 30 árum tífaldast að stofnstærð. Fuglalíf er víða orðið mjög lítið og það er orðið mjög lítið af mófugli, til að mynda á Ströndum, Hornströndum og í fleiri héruðum. Við erum líka að fá af því fréttir norðan úr landi og af Norðvesturlandi að refur sé farinn að ganga í lifandi fé sem var fast í fönn vegna óveðurs þar í síðasta mánuði. Það er alveg ljóst að gríðarlegt tjón er að verða af þessum völdum.

Sveitarfélög sem hafa sent inn umsagnir um fjárlagafrumvarpið hafa mörg hver verið að biðla til fjárlaganefndar um að breyta um kúrs, hefja á ný fjárveitingar til refaveiða, til þessa málaflokks. Þetta höfum við líka orðið vör við í kjördæmaviku á fundum með sveitarstjórnum vítt og breitt um landið þar sem þingmenn eru hvattir til að taka þessi mál upp og beita sér fyrir því að fjárveitingar verði hafnar á ný til refaveiða þannig að halda megi stofnstærð refsins innan eðlilegra marka.

Mig langar að spyrja hv. þm. Björn Val Gíslason hver skoðun hans sé á þessum málum, hvort þingheimur og þjóðin geti treyst því að fjárlaganefnd sé að skoða þetta mál og (Forseti hringir.) hvort hann eigi von á því að fjárveiting til refaveiða verði lögð fram við 2. umr. fjárlaga síðar í haust.