141. löggjafarþing — 20. fundur,  17. okt. 2012.

störf þingsins.

[15:22]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að taka undir orð hv. þm. Skúla Helgasonar sem talaði fyrir því að við í þinginu mundum bæta umgjörð þannig að meðferð kynferðisbrotamála verði betri en nú er, meðal annars með því að auka fjármagn til lögreglunnar. Við framsóknarmenn höfum talað fyrir því og lögðum fram löggæsluáætlun síðasta vor sem ætti þá að varpa ljósi á það hvar vandinn liggur og hvar setja þurfi inn aukið fjármagn. Auk þess höfum við lagt það fram í fjárlögum á liðnum árum.

Ég ætlaði líka að vitna til Greiningar Íslandsbanka, eða Morgunkorns hans, þar sem fjallað er um tekjur af erlendum ferðamönnum. Þar er sagt að á þriðja ársfjórðungi hafi þeir verslað hér fyrir 32,4 milljarða og að hreinn afgangur sé um 18 milljarðar kr. miðað við 16,8 milljarða á sama tíma í fyrra. Það er því ljóst, eins og stendur í Morgunkorninu, að ferðaþjónustan er að skila umtalsverðum og vaxandi gjaldeyristekjum til landsins þótt þær virðist ekki hafa dugað til þess að blása nægum vindi í segl krónunnar á nýliðnum ársfjórðungi.

Nú vil ég rifja upp tillögur ríkisstjórnarinnar, Vinstri grænna og Samfylkingarinnar, í þessum málaflokki þar sem lagt er til að hækka virðisaukaskatt á gistingu í ferðaþjónustunni rúmlega þrefalt og hafa þar með áhrif á það að þessi vaxtarbroddur í atvinnugreininni á Íslandi minnki þannig að tekjur af þessum hluta innstreymis gjaldeyristekna lækki, verði alla vega ekki meiri en hér er, eins og við þurfum virkilega á því að halda og krónan líka. Við framsóknarmenn höfum talað gegn þessu. Við höfum lagt mikla áherslu á að menn töluðu um þetta og vörpuðu skýru ljósi á þetta.

Ég vil nota þetta tækifæri, frú forseti, til að minna á að formaður Framsóknarflokksins, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, (Forseti hringir.) verður með fund um þetta mál með aðilum í ferðaþjónustunni í hádeginu á morgun á Kaffi Sólon. Það er mikilvægt að við gerum okkur grein fyrir því (Forseti hringir.) að sú leið sem ríkisstjórnin ætlar að fara er sú leið að minnka kökuna en ekki auka tekjur samfélagsins.