141. löggjafarþing — 20. fundur,  17. okt. 2012.

störf þingsins.

[15:32]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég vil ræða áfram það mál sem hv. þm. Eygló Harðardóttir nefndi um stöðu Íbúðalánasjóðs. Í morgun kom frétt frá Bloomberg um að greiðslufall blasi við Íbúðalánasjóði. Því var reyndar mótmælt í yfirlýsingu frá Íbúðalánasjóði.

Íbúðalánasjóður býr við ákveðinn kerfisvanda, hann fjármagnar sig með sölu ríkisskuldabréfa, þ.e. skuldabréfa með ríkisábyrgð, til mjög langs tíma á föstum vöxtum. Hann hefur ekki uppgreiðslumöguleika á þeim lánum og það er veila sem hefði átt að vera búið að laga fyrir löngu, að minnsta kosti eftir að hún kom í ljós, sem var eftir hrun. Það vantar enn.

Síðan er hann í þeirri stöðu að núna er hann að tapa markaðshlutdeild. Sífellt fleiri taka óverðtryggð lán hjá bönkunum en þó að Íbúðalánasjóður hafi heimild til að lána óverðtryggt hefur hann ekki enn þá nýtt þá heimild þannig að í síðasta mánuði voru uppgreiðslurnar eiginlega svipaðar og útlánin. Þá þarf hann líka að ráðstafa öllum afborgunum og slíku. Vandi Íbúðalánasjóðs er sá að hann er með feiknamikið fé sem hann kemur ekki í ávöxtun og ekki í sambærilega ávöxtun og á þeim bréfum sem hann selur.

Nú er spurningin hvað ríkisstjórnin hefur gert. Það er beðið eftir niðurstöðu nefndar sem á að koma með úrlausnir. Hvað hyggst hv. fjárlaganefnd gera? Þeirri spurningu beini ég til formanns nefndarinnar, Björns Vals Gíslasonar: Hvað þarf að gera í fjárlaganefnd? Þarf að auka fjárveitingar umtalsvert? Hafa menn tekið utan um allan vandann?