141. löggjafarþing — 20. fundur,  17. okt. 2012.

Stjórnarráð Íslands.

214. mál
[15:56]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir framsöguna í þessu máli. Það er einkennilegt að standa hér þegar aðeins eru nokkrir mánuðir í kosningar og enn er verið að gera breytingar á stjórnarráðslögunum. Eins og allir vita þá er það nú yfirleitt gert við upphaf ríkisstjórnartímabils en enn stöndum við þingmenn frammi fyrir því að frumvarp um Stjórnarráð Íslands sé komið inn í þingið sem segir að Alþingi er sífellt að spóla í sömu förunum. Við þekkjum þau vinnubrögð frá þessari ríkisstjórn að ekki er hægt að leggja fram heildstæð mál í heilu lagi heldur eru stundaðar hér lagabætur.

Eins og fram hefur komið var lögum um Stjórnarráð Íslands breytt og þá var mörkuð sú stefna að fagheiti ráðherra og ráðuneyta yrðu ekki lengur tilgreind í lögum, ekki skilgreint hvaða ráðherra eða ráðuneyti færu með sérstaka málaflokka heldur yrði kveðið á um það í forsetaúrskurði.

Þetta verður til þess að mjög erfitt er að sjá hvaða málaflokkar tilheyra hverju ráðuneyti eins og fram hefur komið í málflutningi varðandi 12. gr. sem snýr að breytingu á lögum um loftslagsmál. Um 12. gr. stendur, með leyfi forseta:

„Komi tveir eða fleiri ráðherrar við sögu er vísað til þess eða þeirra ráðherra sem ekki bera meginábyrgð á framkvæmd laganna með því að tilgreina viðkomandi stjórnarmálefni, sé það ekki augljóst af samhengi.“

Verði þetta frumvarp að lögum, og náttúrlega með vísan í lög um Stjórnarráð Íslands sem voru samþykkt 2011, langar mig að spyrja hvernig hæstv. forsætisráðherra líti á ráðherraábyrgð þegar svo augljós skil eru á milli ábyrgðar ráðherra og hvaða málefni hann fer með.