141. löggjafarþing — 20. fundur,  17. okt. 2012.

Stjórnarráð Íslands.

214. mál
[16:09]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hugsa að okkur hv. þingmann greini á um það hvort það sé magurt sem heyrir undir auðlindaráðuneytið, en verið er að bæta þar við. Ég fór yfir þau verkefni sem koma frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu og færast yfir í auðlindaráðuneytið og verkefni sem koma frá iðnaðarráðuneytinu og síðan eru ýmis ný verkefni sem þangað flytjast yfir. Ég tel því að þetta séu ekki mögur verkefni og ekki sé hægt að flokka þau undir það.

Varðandi Hafrannsóknastofnun og þær breytingar sem er verið að gera á stjórn stofnunarinnar þar sem verksvið forstjóra er aukið og stjórn stofnunarinnar sem slík er lögð niður, þá er það fyrst og fremst ráðgjafarnefnd sem fjallar um þau málefni sem eru þá ný á þessu sviði. Ég á ekki von á því að miklar deilur geti orðið um það sem þar fer fram, um langtímastefnumörkun fyrir stofnunina.