141. löggjafarþing — 20. fundur,  17. okt. 2012.

upplýsingalög.

215. mál
[16:44]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svarið er já. Ég hélt satt að segja að hv. þingmaður væri búin að fara yfir þetta mál á að minnsta kosti tveimur þingum. Ég veit ekki betur en hún eigi sæti í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. (Gripið fram í.) Hún ætti því að vita að hér er verið að opna verulega fyrir upplýsingar frá því sem verið hefur. Þetta frumvarp hefur vissulega tekið breytingum í meðförum þingsins þar sem um enn meiri opnanir er að ræða en upphaflega var gert ráð fyrir.

Til dæmis það ákvæði sem hv. þingmaður nefndi hér áðan varðandi 2. gr. Fyrst var talað um að lögin tækju til allrar starfsemi lögaðila sem eru að 75% hluta eða meira í eigu hins opinbera. Nú er þetta komið niður í 51% þannig að verulegur fjöldi fyrirtækja fellur undir þetta. (VigH: Þeim fækkar.) — Hvernig getur þeim fækkað? Ég botna ekkert í því. Þegar verið er að tala um eignarhlut í fyrirtækjum sem var áður 75% eignarhlutur en er nú kominn niður í 51% þá hlýtur fyrirtækjum sem falla undir lögin að fjölga. Ef þetta er upplifun hv. þingmanns af þessari breytingu eða þessu ákvæði laganna þá skil ég vel að hún misskilji ýmislegt annað í frumvarpinu.