141. löggjafarþing — 20. fundur,  17. okt. 2012.

upplýsingalög.

215. mál
[17:02]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla að svara þessari spurningu frekar diplómatískt og segja: Þarna er einmitt verkefni fyrir nefndir þingsins að vinsa úr. Og sé eitthvað í þessu frumvarpi sem stangast á við einhver önnur frumvörp sem fram eru komin eða verða rædd hérna, til dæmis um það álitaefni sem hv. þingmaður nefnir varðandi hljóðritanir á ríkisstjórnarfundum, þá verður nefndin sem hefur málið til umfjöllunar, sem við bæði eigum sæti í, að passa upp á að niðurstaðan verði alla vega ekki sú að einstaka lagagreinar rekist á.

Það er kannski ekki auðvelt að komast hjá því að einstök frumvörp sem koma inn í þingið rekist á í einhverjum atriðum. En finnist nú einhver niðurstaða í þessu hljóðritunarmáli, komið er fram þingmál frá meiri hlutanum í nefndinni um það og ákveðin merki eru um að þau áform sem uppi voru og eru lögfest í dag um að hljóðrita ríkisstjórnarfundi frá og með 1. nóvember næstkomandi verði ekki að veruleika, þá þarf auðvitað að skoða þetta tiltekna ákvæði sem hv. þingmaður nefnir í þessu frumvarpi í samhengi við það.

En ég held einmitt að svona atriði séu ákveðin röksemd fyrir því að flýta sér ekki um of við afgreiðslu lagafrumvarpa af þessu tagi. Hér er um að ræða frumvarp sem, eins og ég sagði í ræðu minni, á að standa til lengri tíma og á að hafa eitthvert gildi. Það á ekki að þurfa að breyta því frá ári til árs eða frá ríkisstjórn til ríkisstjórnar. Þetta eiga að vera einhverjar almennar reglur sem eiga að hafa sæmilega festu og þess vegna í sjálfu sér held ég að það sé ekkert slæmt að málið fái enn eina yfirferðina.

Varðandi hins vegar breytingar á frumvörpum milli ára er það auðvitað rétt að stundum er bætt í og stundum er fellt úr. Hvað varðar breytingar á þessu frumvarpi endurtek ég þó það sem ég sagði áðan að mér sýnist þær vera frekar til batnaðar en hitt.