141. löggjafarþing — 20. fundur,  17. okt. 2012.

upplýsingalög.

215. mál
[17:10]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála hv. þm. Birgi Ármannssyni að auðvitað á að vinna mál vel. Hann segir að það sé ágætt að þetta fari hér í þriðja sinn í gegn og að hægt sé að vinna málið þá betur og auðvitað á að vinna mál eins vel og mögulegt er. En hvernig það virkar hér á þinginu að vera með mál lengi í meðförum þá finnst mér það nú óþarflega þungt að mæla þurfi alltaf fyrir nýju frumvarpi á nýju þingi og tímapressa verður líka mikil á vorin þegar fólk vill kannski reyna að klára mál til að þurfa ekki að bera það aftur upp á nýju þingi.

En ég er alveg sammála hv. þingmanni um að það verður náttúrlega auðveldara að fara í gegnum mál og þetta mál hefur tekið talsverðum breytingum núna þegar það er flutt í þriðja sinn frá því það var flutt fyrst.

En þá vil ég í því sambandi spyrja hv. þingmann hvort hann geti ekki verið sammála mér um það að okkur ætti að vera unnt núna, á ekki mjög löngum tíma, að ljúka yfirferð yfir málið í nefndinni þannig að við klárum það örugglega helst fyrir jól eða sem fyrst eftir jól.