141. löggjafarþing — 20. fundur,  17. okt. 2012.

skyldur erlendra fyrirtækja og starfskjör starfsmanna þeirra.

66. mál
[17:21]
Horfa

Frsm. velfn. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti velferðarnefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 45/2007, um réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja sem senda starfsmenn tímabundið til Íslands og starfskjör starfsmanna þeirra, með síðari breytingum.

Tilurð frumvarps þessa sem hér er til umfjöllunar má rekja til dóms EFTA-dómstólsins í máli nr. E-12/10, frá 28. júní 2011. Í dómnum komst dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að ákvæði íslenskra laga um rétt til launa í veikinda- og slysatilvikum sem og um slysatryggingar vegna andláts, varanlegs líkamstjóns og tímabundins missis starfsorku væru ekki í samræmi við ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins um störf útsendra starfsmanna í tengslum við veitingu þjónustu.

Fyrir nefndinni kom fram að við vinnslu frumvarpsins höfðu stjórnvöld samráð við aðila vinnumarkaðarins. Voru allir sammála um að tryggja þyrfti sem best réttindi útsendra starfsmanna hér á landi, og því yrðu með frumvarpinu gerðar eins litlar breytingar og mögulegt er með hliðsjón af fyrrgreindum dómi EFTA-dómstólsins. Þannig væri bæði horft til þess að réttindi erlendra starfsmanna hér á landi væru eins góð og hægt er og einnig að ekki yrði grafið undan samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja gagnvart erlendum fyrirtækjum sem senda starfsmenn hingað til lands tímabundið.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt og undir nefndarálitið rita hv. þingmenn Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Þuríður Backman, Jónína Rós Guðmundsdóttir, Árni Þór Sigurðsson, Einar K. Guðfinnsson, Unnur Brá Konráðsdóttir, Eygló Harðardóttir og Guðmundur Steingrímsson. Hv. þingmaður Kristján L. Möller var fjarverandi við afgreiðslu málsins.