141. löggjafarþing — 20. fundur,  17. okt. 2012.

bætt skattskil.

51. mál
[17:44]
Horfa

Flm. (Skúli Helgason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um bætt skattskil, þess efnis að Alþingi álykti að fela fjármála- og efnahagsráðherra að leggja fram aðgerðaáætlun um bætt skattskil sem feli í sér aukið skatteftirlit, skattrannsóknir og markviss viðbrögð gegn undanskotum frá sköttum.

Í tillögunni er gert ráð fyrir því að fjármála- og efnahagsráðherra hafi samráð við embætti ríkisskattstjóra, skattrannsóknarstjóra og tollstjóra við gerð áætlunarinnar og leiti viðhorfa hjá aðilum vinnumarkaðarins, Vinnumálastofnun, Tryggingastofnun, Reykjavíkurborg, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og öðrum hagsmunaaðilum, eftir því sem tilefni þykir til.

Lagt er til að aðgerðaáætlunin verði lögð fram eigi síðar en 1. maí 2013 þar sem fram komi mat á því hvort undanskot séu að aukast í samfélaginu og þá af hverju, hvort gera þurfi lagabreytingar og þá hverjar til að draga úr og vinna gegn undanskotum, hvernig eftirlitsaðgerðum verði helst háttað og hvaða aðrar aðgerðir séu til þess líklegar að stemma stigu við undanskotum frá sköttum.

Að undanförnu hafa komið fram vísbendingar um það að undanskot frá skatti gætu verið að aukast. Seðlamagn í umferð hefur vaxið mjög á síðustu missirum og könnun sem Alþýðusamband Íslands, Samtök atvinnulífsins og ríkisskattstjóri stóðu sameiginlega að sumarið 2011 sýndi fram á að ýmislegt er athugavert í bókhaldi, tekjuskráningu og skattskilum fjölmargra lítilla og meðalstórra fyrirtækja hér á landi. Skil á staðgreiðslu voru röng í mörgum tilvikum, svo og skil á gjöldum til lífeyrissjóða og stéttarfélaga. Auk þess reyndust mörg fyrirtæki vera með óskráða starfsmenn á launum. Átak þessara sömu aðila fór af stað að nýju á sumarmánuðum 2012 en í lítillega breyttri mynd. Sú framhaldsathugun gefur til kynna að svört atvinnustarfsemi fari heldur vaxandi og sýnist vera verulegt vandamál, ekki síst í ferðaþjónustu. Þá er ástandið í mannvirkjagerð og byggingastarfsemi litlu betra. Mörg dæmi eru um að starfsmenn séu á duldum launum og jafnframt á atvinnuleysisbótum. Þá hefur einnig komið fram að fyrirtæki eru rekin án þess að hafa tilskilin leyfi.

Þess er getið í greinargerðinni að stjórnvöld hafi á liðnum árum gert reglubundna athugun á umfangi skattskila og undanskota frá sköttum og er niðurstaða þeirra athugana í stuttu máli að umfangið er álitið hafa verið á bilinu 4,25%, í athugun sem fór fram á níunda áratug síðustu aldar, og upp í 11,5% í nýjustu athuguninni sem fór fram á árunum 2003–2004. Þá er átt við 11,5% af landsframleiðslu. Það er varlegt mat í greinargerð með tillögunni að umfangið hafi dregist saman við hrun fjármálakerfisins þar sem endi var bundinn á umfangsmikla alþjóðlega fjármálastarfsemi innlendra aðila, sem meðal annars hafði það að markmiði að koma söluhagnaði lögaðila undan skatti í erlend skattaskjól. Engu að síður er það mat flutningsmanna, sem var borið undir fulltrúa frá ríkisskattstjóra, að um þessar mundir gætu undanskot numið 6% af landsframleiðslu. Á síðasta ári var landsframleiðslan í kringum 1.630 milljarðar kr. og af því má ætla að tekjutap ríkissjóðs af þeim sökum gæti numið um 98 milljörðum kr. á hverju ári. Það er athyglisvert að það er nánast sama fjárhæð og nemur öllum tekjuskatti einstaklinga á yfirstandandi ári, gert er ráð fyrir að 98,4 milljarðar fari í ríkissjóð í gegnum tekjuskatta einstaklinga á yfirstandandi ári.

Það er ljóst að þetta er mikið þjóðfélagsmein. Skattundanskotin auka mjög misræmi í samfélaginu, þau skekkja alla samkeppnisstöðu í atvinnulífinu á milli þeirra fyrirtækja sem standa í skilum og eru með allt sitt uppi á borðum og hinna sem gera það ekki og raska þar með jafnvægi í atvinnulífinu og samfélaginu öllu. Undanskot sem eru látin óátalin vega enn fremur að rótum réttarríkisins og ég tel afar brýnt að við grípum til skilvirkra og markvissra aðgerða á hverjum tíma til þess að draga úr svartri atvinnustarfsemi og undanskotum frá sköttum.

Það er tilgangurinn með þessari tillögu sem lögð er fram af fulltrúum úr nokkrum stjórnmálaflokkum. Hér eru auk mín hv. þingmenn Helgi Hjörvar, Lilja Mósesdóttir, Magnús Orri Schram, Árni Þór Sigurðsson, Jónína Rós Guðmundsdóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Sigmundur Ernir Rúnarsson, Lúðvík Geirsson og Ólína Þorvarðardóttir. Er vísað til þess að fjármála- og efnahagsráðherra verði falið að taka saman rökstudda aðgerðaáætlun sem verði tilbúin á vori komanda.

Ég læt þetta duga af umfjöllun um þessa tillögu til þingsályktunar og legg til að að lokinni þessari umræðu verði henni vísað til efnahags- og viðskiptanefndar.