141. löggjafarþing — 21. fundur,  18. okt. 2012.

samskipti ríkisstjórnar og atvinnulífs.

[10:31]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Mig langar til að ræða við hæstv. forsætisráðherra um samskipti ríkisstjórnar og atvinnulífs, með sérstakri áherslu á skattumhverfið í landinu. Nýlega kvörtuðu Samtök atvinnulífsins undan því að ekki væri staðið við samkomulag sem gert hefur verið við aðila vinnumarkaðarins.

Ég ætla að nefna eitt tiltekið dæmi. Þegar skrifað var undir það í desember árið 2009 milli Samtaka atvinnulífsins og samtaka álframleiðenda annars vegar og fjármálaráðuneytis og iðnaðarráðuneytis hins vegar að stóriðjufyrirtækin í landinu mundu greiða tiltekna fyrirframgreiðslu á tekjuskatti og einnig tiltekinn skatt á hverja kílóvattstund, sérstakan orkuskatt, var gengið út frá því að með þessu væri náð rammasamkomulagi sem ætti að gilda til ársins 2018. Fyrirtækin treystu þessu samt ekki alveg vegna þess að þegar Ísal fór í 60 milljarða kr. framkvæmdir í Hafnarfirði árið 2010 var haldinn sérstakur fundur með fjármálaráðherra og spurt: Er ekki alveg öruggt að samningarnir standi?

Í framhaldi af því var óskað eftir skriflegri staðfestingu á því að samningarnir mundu standa. Bréf kom frá fjármálaráðuneytinu þar sem sagt var: Jú, samningarnir munu standa. Það eru engin áform um frekari skattahækkanir, eins og segir í bréfinu frá Steingrími J. Sigfússyni, þáverandi fjármálaráðherra. Í því segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Það felur í sér að ekki verða lagðir frekari skattar á stórnotendur raforku sem slíka á gildistíma samkomulagsins. Ekki eru heldur uppi af hálfu ráðuneytisins önnur áform um sérstaka skattbreytingar sem tengjast mundu stóriðjufyrirtækjunum einum saman sem raskað gætu forsendum fjárfestinga þeirra.“

Bréf sem er ritað af tilefni nýrrar fjárfestingar inn í landið. Hvernig stendur á því, hæstv. forsætisráðherra, að aldrei er staðið við nokkurn hlut sem sagður er eða skrifaður eða samið er um? Ekki einu sinni þegar menn hafa óskað eftir (Forseti hringir.) ítrekun á því að skattumhverfið verði óbreytt er það virt. Þá er ég að vísa í nýframkomið fjárlagafrumvarp um að einmitt þessi skattur verði framlengdur.